„Það er þvílíkur léttir að vera laus frá Bröndby eftir allt þetta vesen og langt og leiðinlegt ferli. Núna er ég bara atvinnulaus fótboltamaður og engum bundinn, og vonast til að geta gengið frá nýjum samningi einhvers staðar áður en langt um líður,“ sagði Stefán Gíslason knattspyrnumaður við Morgunblaðið í gær.
Stefán hefur í kjölfarið verið sterklega orðaður við Viking Stavanger í Noregi, þar sem hann var á láni í fjóra mánuði á síðasta ári. Í Stavanger Aftenblad var m.a. fullyrt fyrir helgina að Stefán væri þegar búinn að gera samkomulag við félagið. Hann vildi þó ekki segja að leiðin lægi beint þangað.
„Nei, ég er ekkert endilega á leiðinni til Viking, þó það hafi verið fullyrt víða. Ég er eiginlega hissa á hversu eindregnar fréttir hafa verið af því. Ég held öllum möguleikum opnum og það kemur margt fleira til greina," sagði Stefán.
Sjá nánar viðtal við Stefán í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.