Englendingurinn Steve McClaren hefur verið látinn taka pokann sinn hjá þýska liðinu Wolfsburg. Frá þessu var greint í fréttatilkynningu í dag en Þjóðverjinn Pierre Littbarski mun taka við starfinu.
McClaren tók við liðinu síðasta sumar en hefur aðeins fagnað sigri fimm sinnum í tuttugu og einum deildarleik. Wolfsburg er í 12. sæti deildarinnar en liðið stóð uppi sem Þýskalandsmeistari vorið 2009.
Framkvæmdastjóri félagsins er fyrrum framherji Bayern Munchen Dieter Hoeness og hann lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að stjórnendur félagsins hefðu ekki lengur trú á að samstarfið við McClaren gæti orðið til góðs.
McClaren vakti fyrst athygli sem aðstoðarmaður Sir Alex Fergusons hjá Manchester United en tók síðar við liði Middlesbrough og kom því í úrslitaleik UEFA keppninnar á sínum tíma. McClaren varð jafnframt landsliðsþjálfari Englendinga en hrökklaðist frá eftir að liðinu mistókst að vinn sér sæti í lokakeppni EM 2008. Þá fór McClaren til Hollands og náði frábærum árangri með Twente og vann titil með félaginu sem kom mjög á óvart.
Pierre Littbarski er ein stærsta knattspyrnustjarna Þjóðverja og lék lengst af með Köln. Hann lék þrisvar í röð til úrslita á HM og sigraði í þriðju tilraun árið 1990. Littbarski þjálfaði um tíma Vaduz í Liechtenstein og stjórnaði þá Íslendingunum Gunnleifi Gunnleifssyni, Guðmundi Steinarssyni og Stefáni Þórðarsyni.