Pierre Littbarski nýr þjálfari þýska 1. deildarliðsins Wolfsburg byrjar með nokkrum látum hjá félaginu. Hann ákvað í dag að setja Brasilíumanninn Diego í eins leiks bann fyrir að taka vítaspyrnu í heimildarleysi í síðasta kappleik liðsins gegn Hannover um liðna helgi.
Littbarski tók við þjálfun Wolfsburg í gær eftir að Steve McClaren var sagt upp störfum. Littbarski var aðstoðarmaður McClaren.
Í fyrrgreindum leik átti Patrick Helmes að taka vítaspyrnuna sem leikmenn Wolfsburg fengu. Diego krafðist þess að taka spyrnuna og Helmes gaf eftir. Diego brást bogalistinn og Wolfsburg tapaði leiknum, 1:0.
„Ég hef ákveðið að Diego fari í eins leiks bann hjá okkur. Nú getur hann hugsað sinn gang og vonandi aðstoðað okkur þegar hann hefur tekið út sína refsingu,“ sagði Littbarski í dag.