Óvæntur sigur Íslands gegn Svíþjóð

Katrín Ómarsdóttir fagnar Katrínu Jónsdóttur (8) og fleirum eftir að …
Katrín Ómarsdóttir fagnar Katrínu Jónsdóttur (8) og fleirum eftir að sú síðarnefnda kom Íslandi í 2:1. mbl.is/Algarvephotopress

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu kom geysilega á óvart í fyrsta leiknum í Algarve-bikarnum í Portúgal í dag og sigraði Svía, fjórða sterkasta lið heims, 2:1. Þetta er fyrsti sigur Íslands í tíu landsleikjum þjóðanna en Svíar höfðu unnið átta leiki og liðin einu sinni gert jafntefli.

Sænska liðið var talið langsterkast í B-riðli mótsins og það komst yfir strax á 2. mínútu. Margrét Lára Viðarsdóttir jafnaði á 38. mínútu og Katrín Jónsdóttir skoraði sigurmark Íslands á 54. mínútu. Í uppbótartíma leiksins kom Þóra B. Helgadóttir í veg fyrir að Svíar jöfnuðu metin þegar hún varði glæsilega úr dauðafæri.

Svíar eru í fjórða sætinu á heimslista FIFA en Íslendingar eru í 17. sæti listans.

Ísland leikur næst við Kína á föstudag og síðan við Danmörku á mánudag. Danmörk vann Kína, 1:0, í hinum leiknum í riðlinum sem fram fór á sama tíma í dag.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90+4 Flautað af og Ísland vinnur sögulegan sigur á Svíþjóð!

90+1 Svíar komast í dauðafæri í uppbótartímanum, fyrirgjöf og skalli, en Þóra B. Helgadóttir ver stórglæsilega í íslenska markinu!

86. Ísland er enn yfir og stutt eftir af leiknum. Væntanlega þó einar 4 mínútur í uppbótartíma vegna skiptinga og meiðsla. Sænska liðið hefur sótt af krafti undanfarnar mínútur en það íslenska verst vel.

77. Leikurinn hefur verið í jafnvægi í seinni hálfleik. Liðin sækja til skiptis en það er lítil vinátta í gangi. Vel tekið á og Ólína G. Viðarsdóttir var utan vallar í nokkrar mínútur en er komin inná aftur.

76. Rakel Logadóttir kemur inná fyrir Fanndísi Friðriksdóttur.

73. Greta Mjöll Samúelsdóttir kemur inná fyrir Hallberu Guðnýju Gísladóttur.

66. Ólína G. Viðarsdóttir  fær gula spjaldið fyrir brot og Svíar aukaspyrnu 20 m frá marki. Hættuleg sending en laus skalli beint í hendurnar á Þóru í markinu.

63. Dagný Brynjarsdóttir kemur inná fyrir Katrínu Ómarsdóttur.

54. MARK!! Ísland er komið yfir gegn fjórða besta liði heims, 2:1. Edda Garðarsdóttir tekur aukaspyrnu, Margrét Lára Viðarsdóttir skallar innað markinu. Boltinn hrekkur fyrir fætur fyrirliðans, Katrínar Jónsdóttur, sem þrumar honum í sænska markið!!

49. mín. Seinni hálfleikur er hafinn og Svíar hafa byrjað af miklum krafti og sótt fyrstu mínúturnar.

45. mín: Staðan er 1:1 að loknum fyrri hálfleik. Margrét Lára Viðarsdóttir slapp inn fyrir vörnina eftir sendingu frá Eddu Garðarsdóttur og skoraði á 38. mínútu.  Ísland gerði breytingu á liði sínu á 43. mínútu. Thelma Björk Einarsdóttir fór af velli og Ólína G. Viðarsdóttir fór í bakvörðinn í hennar stað.

30. mín: Staðan er 1:0 fyrir Svíþjóð. Íslenska liðið hefur verið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en hefur ekki tekist að nýta sér það. Edda Garðarsdóttir hefur átt tvö ágæt skot sem bæði fóru fram hjá sænska markinu. Íslenska liðið hefur skapað sér nokkur hálffæri auk þess að fá nokkrar hornspyrnur. Svíarnir hafa ekki fengið nein dauðafæri ef frá er talið markið í upphafi leiksins og Þóra hefur ráðið við það sem á markið hefur komið síðan þá. 

10. mín: Staðan er 1:0 fyrir Svíþjóð. Óskabyrjun hjá Svíum því þær sænsku skoruðu strax á 2. mínútu leiksins. Um var að ræða skallamark af fremur stuttu færi eftir fyrirgjöf. Íslenska liðið hefur síðan þá verið meira með boltann án þess þó að skapa sér hættuleg marktækifæri.

Ísland og Svíþjóð mættust einnig í Algarve-bikarnum í fyrra. Svíar sigruðu, 5:1, eftir að Ísland var 1:0 yfir í hálfleik.

Lið Íslands: Þóra B. Helgadóttir - Rakel Hönnudóttir, Katrín Jónsdóttir, Sif Atladóttir, Thelma B. Einarsdóttir - Fanndís Friðriksdóttir, Katrín Ómarsdóttir, Sara B. Gunnarsdóttir, Edda Garðarsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir - Margrét Lára Viðarsdóttir.

Lið Svíþjóðar: Hedvig Lindahl - Lina Nilsson, Stina Segerström, Charlotte Rohlin, Sara Thunebro - Therese Sjögran, Nilla Fischer, Lisa Dahlkvist, Antonia Göransson - Lotta Schelin, Josefine Öqvist.

Margrét Lára Viðarsdóttir (9), Edda Garðarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir …
Margrét Lára Viðarsdóttir (9), Edda Garðarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir (7) fagna jöfnunarmarki Margrétar í leiknum í dag. mbl.is/Algarvephotopress
Byrjunarlið Íslands fyrir leikinn í dag.
Byrjunarlið Íslands fyrir leikinn í dag. mbl.is/Algarvephotopress
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert