Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu vann í dag Kína 2:1 á Algarve mótinu sem fram fer í Portúgal. Þetta var annar leikur liðsins í B-riðli en Ísland er eftir sigurinn efst í riðlinum með 6 stig. Þær unnu Svíþjóð á miðvikudaginn og eru því með fullt hús stiga.
Kínverska liðið komst yfir á 21. mínútu en Margrét Lára Viðarsdóttir jafnaði metin 5 mínútum síðar. Staðan í hálfleik var því 1:1 en í þeim síðari bætti Margrét Lára sínu öðru marki við og kom Íslandi yfir 2:1. Markið gerði Margrét á 49. mínútu eftir sendingu frá Guðbjörgu Gunnarsdóttur markverði liðsins. Þetta var 70. leikur Margrétar fyrir Ísland og er hún nú búin að skora 58 mörk.
Þá jafnaði Katrín Jónsdóttir leikjamet Rúnars Kristinssonar en þetta var hennar 104. leikur. Hún var líkt og áður fyrirliði liðsins í leiknum.
Þetta var annar sigur sigur Íslands á Kína í þremur leikjum. Í öll skiptin hafa liðin spilað á Algarve mótinu.
Næsti leikur Íslands er á mánudaginn og þá gegn Dönum.
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu sem má sjá hér að neðan.
90+3. Leik lokið, góður sigur hjá íslenska liðinu á því kínverska 2:1 þó minnstu mætti muna undir lokin. Ísland var heilt yfir betra liðið á vellinum en féll þó til baka síðustu fimmtán mínúturnar. Það kom hinsvegar ekki að sök.
90+2. Íslenska liði hefur síðasta stundarfjórðunginn bakkað mikið og það Kínverjar sækja meira. Þær áttu skot sem fór bæði í slánna og stöngina og þaðan út.
90. Kínverjar áttu hornspyrnu og boltinn berst að nærstöng og fer í hendina á Sif Atladóttur. Dómarinn dæmdi hinsvegar ekki víti við lítinn fögnuð Kínverja og allt varð hreinlega vitlaust á bekknum.
79. Dagný Brynjarsdóttir átti góða sendingu á Margréti Láru sem var við það komast í gegn en markvörður Kína var á undan henni í boltann.
77. Hallbera Gísladóttir kemur af velli og Rakel Logadóttir kemur inná. Þetta er þriðja skipting Íslands í leiknum. Ísland hefur átt fleiri færi það sem af er seinni hálfleik.
75. Edda Garðarsdóttir tók aukaspyrnu langt út á velli, upp úr því varð mikill „darraðadans“ inná teig Kínverja sem endaði með því að Dagný Brynjarsdóttir átti skot sem var varið og Kína kom boltanum í burtu.
72. Sara Gunnarsdóttir átti skot að marki Kína en markvörðurinn sá við skoti hennar og varði vel.
61. Önnur skipting Íslands í leiknum Katrín Ómarsdóttir kemur út af og Dagný Brynjarsdóttir kemur í hennar stað.
56. Fanndís Friðriksdóttir kemur af velli en í hennar stað kemur Rakel Hönnudóttir. Rakel var ekki lengi að koma sér í takt við leikinn en hún fékk gott færi og átti möguleika á að skora með sinni fyrstu snertingu en skot hennar fór framhjá.
49. Mark! Margrét Lára skorar aftur, nú fékk hún sendingu fram frá Guðbjörgu í markinu sem hún tók glæsilega niður og hélt boltanum vel. Margrét tók boltann með sér lék á varnamann Kína og kom honum snyrtilega framhjá markverðinum. Þetta er 58. mark Margrétar fyrir Ísland í 70 leikjum. Staðan er því 2:1 fyrir Ísland.
48. Seinni hálfleikur byrjar fjörlega. Kína fær aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig. Í kjölfarið kemur skalli að marki og Guðbjörg Gunnarsdóttir markvörður bjargar á línu.
Hálfleikur: Staðan í hálfleik er 1:1 og leikurinn er líkt og tölurnar mjög jafn og úrslitin hvergi nærri ráðin. Margrét Lára jafnaði metin á 26. mínútu en 5 mínútum áður höfðu þær kínversku komist yfir. Þetta var 13. mark Margrétar á Algarve mótinu og er hún í hópi markahæstu leikmanna mótsins.
43. Fanndís Friðriksdóttir átti hörkuskot úr þröngu færi en það fór framhjá markinu. Jafnræði er með liðunum.
41. Kína fékk hornspyrnu en íslenska liðið náði að verjast vel og ekkert varð úr henni.
35. Margrét Lára fékk gott færi en skaut yfir markið. Leikurinn hefur róast talsvert eftir mörkin tvö.
26. Mark! Ísland jafnar metin, Margrét Lára skoraði markið úr aukaspyrnu eftir að brotið var á henni rétt fyrir utan teigin vinstra megin. Eins og áður segir tók hún aukaspyrnuna sjálf og setti boltan laglega í fjær hornið. Margrét bætir hér enn við mörkin sín með landsliðinu en þetta er hennar 70. leikur fyrir Ísland.
21. Mark! Kína er komið yfir en markið kom eftir fyrirgjöf sem endaði á markteignum og leikmaður Kína átti ekki í vandræðum með að koma boltanum í netið framhjá Guðbjörgu í markinu.
20. Leikurinn hefur heldur jafnast en liðin eru þó ekki að skapa sér nein færi. Þess ber að geta að Dóra María Lárusdóttir er ekki í leikmannahópnum en hún er meidd.
5. Íslenska liðið byrjar þennan leik ágætlega. Það hefur verið meira með boltann á þessum upphafsmínútum leiksins. Margrét Lára Viðarsdóttir var nálægt því að sleppa í gegnum vörn Kína en varnarmenn liðsins komust inn í sendinguna.
1. Leikurinn er hafinn.
Byrjunarlið Íslands:
Markvörður:
Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Varnarmenn:
Þórunn Helga Jónsdóttir
Katrín Jónsdóttir
Sif Atladóttir,
Ólína G. Viðarsdóttir
Varnartengiliðir:
Sara B. Gunnarsdóttir
Edda Garðarsdóttir
Sóknartengiliðir:
Fanndís Friðriksdóttir
Katrín Ómarsdóttir
Hallbera Gísladóttir
Framherji:
Margrét Lára Viðarsdóttir.