Vancouver Whitecaps, undir stjórn Teits Þórðarsonar, byrjaði amerísku MLS-deildina í knattspyrnu frábærlega í kvöld með því að sigra Toronto, 4:2, í fyrsta leik sínum í deildinni frá upphafi en leiknum lauk skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma.
Whitecaps, sem hefur náð góðum árangri hjá Teiti í næstefstu deild í Norður-Ameríku síðustu þrjú árin, er nýliði í MLS-deildinni. Þar leika tvö lið frá Kanada, Whitecaps og Toronto, og því var um "grannaslag" að ræða þó þúsundir kílómetra skilji borgirnar að.
Whitecaps var 2:1 yfir í hálfleik og komst í 4:1 áður en Toronto minnkaði muninn.
Mikið var um dýrðir í Vancouver vegna þessa fyrsta MLS-leiks liðsins í sögunni en völlur liðsins, sem rúmar 26 þúsund manns, var troðfullur.