Stórliðin áfram á sigurbraut

Dani Alves fagnar marki sínu gegn Getafe.
Dani Alves fagnar marki sínu gegn Getafe. Reuters

Barcelona og Real Madrid unnu bæði leiki sína í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í gærkvöld. Barcelona er því áfram með fimm stiga forskot í einvígi liðanna um meistaratitilinn en bæði eiga níu leikjum ólokið.

Real Madrid vann nágranna sína Atlético Madrid, 2:1, á útivelli. Karim Benzema skoraði strax á 11. mínútu og Mesut Özil kom Real í 2:0 eftir hálftíma. Sergio Agüero minnkaði muninn fyrir Atlético fjórum mínútum fyrir leikslok.

Á Camp Nou vann Barcelona sigur á Getafe, 2:1, þar sem Bojan Krkic lék sinn 100. deildaleik fyrir Katalóníufélagið, þó hann sé aðeins tvítugur, og hélt upp á það með því að skora annað mark liðsins. Dani Alves gerði það fyrsta. Manu minnkaði muninn fyrir Getafe rétt fyrir leikslok.

Barcelona er með 78 stig og Real Madrid 73 en Valencia kemur langt á eftir með 54 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert