Leikur Kýpur og Íslands í undankeppni EM í knattspyrnu í kvöld fer ekki fram í Larnaca eins og tvær fyrri viðureignir þjóðanna á Miðjarðarhafseyjunni. Að þessu sinni er leikið á GSP leikvanginum í Nikósíu, höfuðborg Kýpur og viðureign þjóðanna hefst klukkan 18 að íslenskum tíma en klukkan 20 að staðartíma.
GSP er stærsti leikvangur eyjarinnar og rúmar um 23 þúsund áhorfendur en hann er heimavöllur þriggja af sterkustu liðum landsins, APOEL, Omonia og Olympiakos.
Anorthosis, sem hefur aðsetur í Larnaca, og APOEL léku alla heimaleiki sína í Meistaradeild Evrópu á vellinum en liðin komust þangað tvö ár í röð, 2008 og 2009, fyrst liða frá Kýpur. Uppselt var á alla heimaleiki APOEL í keppninni. Þá léku ísraelsk lið um skeið heimaleiki sína í Evrópukeppni á vellinum, m.a. í Meistaradeildinni, vegna stríðsástands heima fyrir.
APOEL og Omonia fá að meðaltali á bilinu 7-9 þúsund áhorfendur á heimaleiki sína í deildakeppninni. Vallarmetið er frá árinu 2002 þegar 23.043 áhorfendur sáu deildaleik milli þessara tveggja liða. Aðsókn hjá Olympiakos er mun minni.
Völlurinn er nýlegur, byggður árið 1999, og er hluti af stóru íþróttasvæði þar sem einnig er að finna frjálsíþróttaleikvang og minni knattspyrnuvöll.