Hermann Hreiðarsson fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu sagði við mbl.is eftir jafnteflið á Kýpur í kvöld að í sínum augum væri markalausa jafnteflið nokkuð sanngjörn úrslit og leikurinn hefði þróast eins og hann hefði átt von á.
Eins og oft áður á Hermann það til að bregða á leik í miðju viðtali og vildi til að byrja með gera lítið úr vítaspyrnunni og stangarskoti Kýpurbúanna. "Þú ert bara eitthvað að bulla," sagði Eyjamaðurinn, en lofaði síðan að vera alvarlegur!
"Það má alltaf gera betur og við hefðum viljað halda boltanum betur í fyrri hálfleik. Seinni hálfleikur var ekki betri. En það má ekki vanmeta þetta stig og við erum tiltölulega sáttir," sagði Hermann Hreiðarsson.