Fimm leikmenn og Ólafur til Preston

Alfreð Finnbogason spilar með 21-árs liðinu annað kvöld.
Alfreð Finnbogason spilar með 21-árs liðinu annað kvöld. mbl.is/Kristinn

Fimm leikmenn úr íslenska A-landsliðshópnum fara í dag til Preston í Englandi þar sem þeir spila með 21-árs landsliðinu í knattspyrnu gegn Englendingum annað kvöld. Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari er með þeim í för.

Fimmmenningarnir eru Alfreð Finnbogason, Arnór Smárason og Birkir Bjarnason, sem allir komu inná sem varamenn gegn Kýpur í A-landsleiknum í gærkvöld, Haraldur Björnsson sem var varamarkvörður og Guðmundur Kristjánsson sem var með í för en ekki í endanlegum 18 manna hópi. Þeir fljúga frá Kýpur til Manchester eftir hádegið í dag og koma til móts við 21-árs liðið sem er komið til Englands eftir að hafa spilað í Úkraínu á fimmtudagskvöldið.

Arnór og Alfreð spiluðu í um það bil hálftíma hvor gegn Kýpurbúum í gærkvöld og þjálfarar og sjúkraþjálfarar meta því hvort og hve mikinn þátt þeir taka þátt í leiknum við England.

Ólafur fylgist með leiknum í Preston annað kvöld og flýgur síðan til Bratislava þar sem hann sér Slóvakíu og Danmörk spila vináttulandsleik á þriðjudagskvöldið. Næsti leikur A-landsliðsins í undankeppni EM er gegn Dönum á Laugardalsvellinum 4. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert