Earnest Stewart, yfirmaður knattspyrnumála hjá hollenska félaginu AZ Alkmaar, segir á vef félagsins í dag að vonast sé eftir því að það náist að semja að nýju við íslenska framherjann Kolbein Sigþórsson, markahæsta leikmann liðsins í vetur.
„Við erum í viðræðum við hann um nýjan samning og vonumst til þess að ganga frá því eins fljótt og mögulegt er. Hann hefur staðið sig mjög vel og það þýðir að önnur félög hafa líka áhuga á honum," sagði Stewart.
Kolbeinn, sem hefur skorað 11 mörk í hollensku úrvalsdeildinni í vetur, hefur verið orðuaður við nokkur ensk lið undanfarið, svo sem Newcastle, Sunderland, Bolton og Everton.
Kolbeinn er nýorðinn 21 árs en hann kom til AZ frá HK sumarið 2007 og hóf að leika með aðalliði félagsins síðasta sumar.