Sara Björk sögð uppgötvun ársins

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. mynd/heimasíða Malmö

Forsvarsmenn sænska knattspyrnuliðsins LdB Malmö eru himinlifandi yfir frammistöðu Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, sem skoraði þrennu í fyrsta leik sínum fyrir Malmö í úrvalsdeild sænska kvennafótboltans. 

„Hún gæti orðið uppgötvun ársins í úrvalsdeildinni," hefur Aftonbladet eftir Peter Moberg, aðstoðarþjálfara Malmö.  

Liðið, sem er sænskur meistari, gerði 1:1 jafntefli í fyrsta leiknum í deildinni gegn Örebro á útivelli og í gær lenti liðið undir  á heimavelli gegn Hammarby. Þá tók Sara Björk tók til sinna ráða. Hún skoraði þrjú mörk í síðari hálfleik á 48.,53., og 90. mínútu. 

Sara Björk segir við blaðið, að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem hún lék sem framherji í liðinu en hún gekk til liðs við Malmö frá Breiðabliki í mars. 

Hún segir, að þær Manon Melis, hollensk landsliðskona, sem einnig leikur í framlínu Malmö, séu farnar að ná vel saman.   

Sara Björk hefur leikið fjölda landsleikja fyrir Ísland þrátt fyrir ungan aldur en hún er aðeins tvítug. Aftonbladet hefur eftir Moberg, að hún sé líkamlega sterk, hröð, hafi mikið þol og sé jafnvíg á báða fætur, sem sé afar mikilvægt hjá framherja. 

Frétt Aftonbladet

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert