Messi skoraði tvívegis í Madríd

Lassana Diarra og Carles Puyol ræða málin ásamt fleiri leikmönnum …
Lassana Diarra og Carles Puyol ræða málin ásamt fleiri leikmönnum í leiknum í kvöld. Reuters

Barcelona stendur afar vel að vígi eftir sigur á Real Madrid, 2:0, í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á Santiago Bernabéu leikvanginum í Madríd í kvöld.

Eftir daufan leik lengi vel færðist fjör í leikinn í seinni hálfleik. Pepe, varnartengiliður Real Madrid, fékk rauða spjaldið eftir klukkutíma leik og leikmenn Barcelona nýttu sér liðsmuninn til hins ítrasta. Lionel Messi skoraði tvívegis og tryggði Katalóníuliðinu sigur sem fer langt með að fleyta þeim í úrslitaleik keppninnar á Wembley.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90. Leik lokið og Barcelona fer með tveggja marka forskot í seinni leikinn á sínum heimavelli.

87. MARK - 0:2. Lionel Messi bætir við marki fyrir Barcelona, sínu 11. í Meistaradeildinni í vetur, eftir glæsilegan einleik í gegnum miðja förn Real Madrid.

76. MARK - 0:1. Lionel Messi, hver annar, kemur Barcelona yfir með sínu 51. marki á tímabilinu. Afellay, stuttu kominn inná sem varamaður, stingur sér uppað endamörkum hægra megin í vítateig Real og sendir inní markteiginn þar sem Messi kemur á ferðinni og skorar með viðstöðulausu skoti.

68. Pedro skallar naumlega framhjá marki Real Madrid af stuttu færi eftir að Iker Casillas ver hörkuskot frá David Villa.

63. RAUTT -  José Mourinho þjálfari Real Madrid er rekinn af varamannabekknum og uppí stúku fyrir mótmæli eftir að Pepe fékk rauða spjaldið!

61. RAUTT - Pepe, varnartengiliður Real Madrid, fær rauða spjaldið fyrir brot á Dani Alves! Virðist frekar strangur dómur.

53. Sergio Ramos varnarmaður Real Madrid fær gult spjald sem þýðir að hann verður í leikbanni í seinni leik liðanna á Camp Nou í næstu viku.

46. RAUTT - Pinto, varamarkvörður Barcelona, fær rauða spjaldið í leikhléi, í kjölfarið á stimpingum þegar liðin gengu af velli í fyrri hálfleik. Barcelona er að sjálfsögðu áfram með 11 menn inni á vellinum.

45. Flautað til hálfleiks. Staðan er 0:0 í vægast sagt tíðindalitlum leik þar sem liðin hafa átt eitt umtalsvert markskot hvort.

45. Fyrsta alvöru marktækifærið. Cristiano Ronaldo með þrumufleyg að marki Barcelona af 25 m færi og Victor Valdés ver naumlega.

Liðin eru þannig skipuð:

Real Madrid: Casillas, Arbeloa, Sergio Ramos, Albiol, Marcelo, Alonso, Pepe, Diarra, Özil, Ronaldo, Di Maria.
Varamenn: Adan, Kaka, Benzema, Granero, Garay, Higuaín, Adebayor.

Barcelona: Valdés, Dani Alves, Piqué, Busquets, Puyol, Xavi, Mascherano, Keita, Pedro, Messi, Villa.
Varamenn: Pinto, Jeffren, Milito, Afellay, Fontas, Roberto, Thiago.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert