Geta bara afhent Barcelona bikarinn

Það hefur mikið gengið á í fjórum leikjum Barcelona og …
Það hefur mikið gengið á í fjórum leikjum Barcelona og Real Madrid síðustu þrjár vikurnar. Reuters

Leikmenn Real Madrid voru harðorðir eftir leikinn gegn Barcelona í gærkvöld en þar tryggði Katalóníuliðið sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu með jafntefli, 1:1, í seinni leik liðanna á Camp Nou.

Mark sem Gonzalo Higuaín skoraði var dæmt af rétt áður en Pedro kom Barcelona í 1:0 og þar með 3:0 samanlagt.

„Á næsta ári geta þeir bara afhent Barcelona bikarinn fyrirfram," sagði Cristiano Ronaldo við fréttamenn í leikslok.

„Okkur finnst við hafa verið sviknir af dómurunum. Í kvöld gerðist það enn og aftur," sagði markvörðurinn Iker Casillas.

„Margar stórar ákvarðanir í leikjunum féllu gegn okkur og við erum ekki sáttir við það. Við  teljum að við höfum staðið okkur vel en finnst við vera sviknir," sagði Xabi Alonso.

„Ef við hefðum komist yfir í leiknum hefði það gjörbreytt öllu og þá hefði staðan verið galopin.  En eftir þetta áttum við litla möguleika. Allt þar til Pepe var rekinn af velli í fyrri leiknum vorum við inni í þessu og hefðum að óbreyttu komist áfram. Mourinho var mjög miður sín yfir því að geta ekki stjórnað okkur í leiknum en hann gaf okkur mikið af góðum ráðum," sagði Alonso, en José Mourinho var í banni eftir að hafa verið sendur uppí stúku fyrir mótmæli í fyrri leiknum.

„Mourinho hafði rétt fyrir sér. Hann sagði að það yrði útilokað fyrir okkur að komast áfram. Í kvöld sáum við að það var ógerlegt og 100 milljón manns sáu það líka. Það þarf ekki að  segja meira," sagði Aitor Karanka, aðstoðarþjálfari Real Madrid.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert