Helgi ráðinn þjálfari Austria Lustenau

Helgi Kolviðsson í Evrópuleik með Kärnten á Grindavíkurvelli.
Helgi Kolviðsson í Evrópuleik með Kärnten á Grindavíkurvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Helgi Kolviðsson, fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið ráðinn þjálfari austurríska liðsins Austria Lustenau en félagið tilkynnti þetta á vef sínum í dag.

Helgi hefur á tímabilinu sem nú er að ljúka þjálfað lið Pfullendorf í þýsku D-deildinni. Hann lék með Lustenau í tveimur efstu deildunum í Austurríki frá 1996 til 1998, og spilaði aftur í Austurríki, með Kärnten, í efstu deildinni frá 2001 til 2004. Í millitíðinni lék Helgi með Mainz og Ulm í þýsku B-deildinni.

Austria Lustenau er í þriðja sæti austurrísku B-deildarinnar og ljóst að liðið fer ekki upp í efstu deildina í vor.

Helgi hefur síðan verið hjá Pfullendorf frá 2004, sem leikmaður, síðan aðstoðarþjálfari og loks sem aðalþjálfari.

Helgi er 39 ára gamall og lék með ÍK og HK í Kópavogi áður en hann gerðist atvinnumaður hjá Pfullendorf árið 1994. Hann lék 30 A-landsleiki fyrir Ísland frá 1996 til 2003 og áður með 21-árs landsliðinu. Þá lék Helgi 418 deildaleiki á löngum ferli sem leikmaður á Íslandi, í Þýskalandi og Austurríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert