Fjölnissigur á Selfossi og ÍA vann 3:0

Guðmundur Böðvar Guðjónsson úr ÍA og Hafsteinn Briem fyrirliði HK …
Guðmundur Böðvar Guðjónsson úr ÍA og Hafsteinn Briem fyrirliði HK eigast við á Kópavogsvelli. mbl.is/Golli

ÍA og Fjölnir hófu keppni í 1. deild karla í kvöld af miklum krafti og unnu góða útisigra. Skagamenn lögðu HK örugglega, 3:0, í Kópavogi og Fjölnismenn sigruðu Selfyssinga fyrir austan fjall, 3:2, eftir að hafa komist í 2:0.

Hinir tveir leikirnir sem fram fóru í höfuðborginni enduðu báðir með jafntefli. Þróttur R. og Grótta skildu jöfn, 1:1, á gervigrasinu í Laugardal og Leiknir R. og KA gerðu 0:0 jafntefli á grasvelli  Leiknis í Efra-Breiðholti.

Gary Martin var í stóru hlutverki hjá Skagamönnum en hann skoraði tvö marka þeirra gegn HK á Kópavogsvellinum. ÍA var komið í 3:0 snemma í seinni hálfleik og sigur liðsins var aldrei í hættu.

Á Selfossi gerðu Fjölnismenn nánast út um leikinn í fyrri hálfleik þegar þeir komust í 3:0. Heimamönnum tókst að hleypa spennu í leikinn undir lokin þegar þeir höfðu minnkað muninn í 3:2 en nær komust þeir ekki.

Fylgst var með gangi mála í öllum leikjum hér á mbl.is.

20.00 HK - ÍA 0:3 (Hjörtur Hjartarson 8., Gary Martin 20., 51. Rautt spjald: Hafsteinn Briem (HK) 89.)
20.00 Leiknir R. - KA 0:0
20.00 Þróttur R. - Grótta 1:1 (Sveinbjörn Jónasson 55. - Andri Björn Sigurðsson 68.)
20.00 Selfoss - Fjölnir 2:3 (Joe Tillen 45., Ibrahima Ndiaye 78. - Bjarni Gunnarsson 11., Guðmundur Karl Guðmundsson 12., Illugi Þór Gunnarsson 40.(víti))

21.54 Flautað af á gervigrasinu í Laugardal. Þróttur og Grótta skilja jöfn, 1:1.

21.51 Flautað af í Breiðholtinu. Leikur Leiknis R. og KA endar 0:0 eftir tvísýna baráttu. Ólafur H. Kristjánsson var nærri því að tryggja Leikni sigurinn þegar hann átti skalla í þverslá en annars voru norðanmenn síðst lakari aðilinn.

21.50 Flautað af á Kópavogsvelli þar sem ÍA  vinnur mjög öruggan sigur á HK, 3:0.

21.50 Flautað af á Selfossi og Fjölnir vinnur þar góðan sigur, 3:2.

21.45 Hafsteinn Briem fyrirliði HK fær rauða spjaldið í leiknum við ÍA á Kópavogsvelli. Hann fékk sitt annað gula spjald.

21.36 MARK - Selfyssingar minnka muninn í 2:3 gegn Fjölni þegar Ibrahima Ndiaye frá Sengeal skorar. Fylgdi á eftir hörkuskoti Jóns Daða Böðvarssonar sem var varið.

21.31 MARK - Grótta jafnar gegn Þrótti í Laugardalnum, 1:1. Andri Björn Sigurðsson skorar fyrir Selfyssinga.

21.29 Óbreytt á Selfossi, Fjölnir er 3:1 yfir. Í lýsingu Selfyssinga segir: " Sumir stuðningsmanna Selfoss hafa látið þjálfara Selfoss heyra það úr stúkunni enda leikur liðsins verið þungur."

21.26 Í Breiðholtinu er áfram 0:0 og rúmar 20 mínútur eftir. Leiknismenn hafa heldur braggast og skoruðu mark rétt áðan en það var dæmt af vegna rangstöðu. Einhverjir voru ekki sáttur eins og gengur og gerist segir okkar maður á vellinum, Oscar Clausen.

21.18 MARK - Þróttarar ná forystunni gegn Gróttu á gervigrasinu í Laugardal, 1:0, á 55. mínútu. Sveinbjörn Jónasson frá Seyðisfirði skorar.

21.09 MARK - ÍA er komið í 3:0 í Kópavogi gegn HK. Gary Martin skorar sitt annað mark á 51. mínútu, eftir stungusendingu frá Hirti Hjartarsyni. Martin ætlar svo sannarlega að standa undir nafni. Þetta er maðurinn sem á að skjóta Skagamönnum í úrvalsdeildina og hann er greinilega klár í það!

21.01 Óvenjulegt á Kópavogsvelli. Tómas Ingi Tómasson þjálfari HK tekur áhættu í hálfleik og skiptir inná þremur varamönnum. Ætlar greinilega að hrista strax uppí sínu liði. Seinni hálfleikur hafinn.

20.52 Hálfleikur á gervigrasinu í Laugardal. Þróttur og Grótta eigast þar við. "Þróttarar eru búnir að vera mun betri aðilinn. Markið lá í loftinu seinni hlutann en staðan er 0:0," segir Guðmundur Óskar Helgason sem fylgist með leiknum fyrir mbl.is.

20.50 Á Selfossi eru menn ekki ánægðir með sína menn. Í textalýsingu Selfyssinga segir: "MARTRAÐARBYRJUN á íslandsmótinu hérna á Selfossi, lentum 0-3 undir gegn liði sem er ekkert betra en okkar lið og þar er um að kenna samblöndu af vanmati, kæruleysi og þreytu eftir mánudaginn."

20.48. Flautað til hálfleiks í Kópavogi þar sem ÍA er með forystu, 2:0. Mjög verðskuldað þó HK hafi aðeins sótt í sig veðrið seinni hluta hálfleiksins.

20.45 MARK -  Selfyssingar ná að svara fyrir sig og minnka muninn í 1:3 gegn Fjölni á 45. mínútu. Joe Tillen hamrar boltann í netið eftir sendingu frá Arelíusi Marteinssyni.

20.40 MARK -  Fjölnir er kominn í 3:0 á Selfossi. Illugi Þór Gunnarsson skorar úr vítaspyrnu á 40. mínútu en það var brotið á Guðmundi Karli Guðmundssyni. Mögnuð byrjun Grafarvogspilta.

20.34. Í Breiðholtinu er það KA sem byrjar betur og hefur átt nokkur ágæt færi. Akureyringarnir eru frískari það sem af er leik en Leiknismenn hafa lítið sýnt.

20.29 Það er enn allt með kyrrum kjörum í Laugardalnum og Breiðholtinu. Gróttumenn voru reyndar rétt í þessu að bjarga á marklínu gegn Þrótti á gervigrasinu í Laugardal en annars hefur sá leikur verið tíðindalítill. Þar fylgist okkar maður, Guðmundur Óskar Helgason, með gangi mála.

20.21 MARK - ÍA er komið í 2:0 gegn HK. Eftir hornspyrnu skorar Gary Martin af stuttu færi á 20. mínútu. Útlit fyrir öruggan sigur Skagamanna í kvöld.

20.17 MÖRK - Staðan á Selfossi er skyndilega orðiðn 2:0 fyrir Fjölni. Bjarni Gunnarsson skoraði á 11. mínútu og Guðmundur Karl Guðmundsson á 12. mínútu. Óskabyrjun hjá Ásmundi og hans strákum.

20.10 MARK - ÍA komið yfir í Kópavogi. Hjörtur Júlíus Hjartarson er þar á ferð á 8. mínútu með góðum skalla úr miðjum vítateig eftir fyrirgjöf frá hægri. Skagamenn hefja mótið vel og líta ágætlega út á upphafsmínútunum.

20.01 Þá er komið að því. Keppnin í 1. deildinni 2011 er hafin. 

19.59 Á Kópavogsvelli Aaron Palomares heiðaður fyrir að hafa leikið 100 meistaraflokksleiki með HK. Nýorðinn 21 árs og því ansi gott.

19.57 Stutt í byrjunina og á Kópavogsvelli er komið talsvert af fólki í stúkuna. Það verður gaman að sjá markaskorarann Gary Martin og fyrrum Newcastle-manninn Mark Doninger í liði ÍA. Og ekki síður hinn síunga Dean Martin sem er 39 ára en í byrjunarliði Skagamanna í kvöld.

19.51 Leiknir R. verður væntanlega í toppbaráttunni í sumar á meðan KA er spáð erfiðara sumri í neðri hlutanum.  Leiknismenn misstu af úrvalsdeildarsætinu á síðustu stundu í fyrra. Nú kemur betur í ljós hvort þeir séu klárir í áframhaldandi toppslag. Annars vekur athygli að framherjinn Pape Mamadou Faye er á bekknum hjá Leikni í kvöld. Hann kom frá Fylki og búist er við miklu af honum í Breiðholtinu.

19.41 Skagamenn þykja mjög sigurstranglegir í deildinni í ár. Þeir eru í heimsókn á Kópavogsvelli gegn liði HK sem flestir reikna með að eigi erfitt sumar fyrir höndum í fallbaráttu deildarinnar.

19.40 Leikskýrslan úr Leiknir R. - KA er tilbúin, smellið hér.

19.40 Leikskýrslan úr Þróttur - Grótta er tilbúin, smellið hér.

19.39 Leikskýrslan úr Selfoss - Fjölnir er tilbúin, smellið hér.

19.38 Leikskýrslan úr HK - ÍA er tilbúin, smellið hér.

19.37 Miðað við spár fyrir tímabilið ætti leikur Selfoss og Fjölnis að vera eina mest spennandi í kvöld. Reiknað er með báðum liðum í harðri baráttu um sæti í úrvalsdeildinni.  Þá var Þrótti og Gróttu báðum spáð erfiðri fallbaráttu og útfrá því er þar líka slegist um dýrmæt stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert