ÍR vann í dag góðan 2:1 sigur á BÍ/Bolungarvík á Ísafirði. ÍR-ingar komust yfir í leiknum en heimamenn jöfnuðu eftir hornspyrnu. Það var svo Axel Kári sem tryggði ÍR sigur með marki úr vítaspyrnu þegar þrjár mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma. Leikurinn var hin þokkalegasta skemmtun en ljóst er að þetta tap var ekki á dagskránni hjá heimamönnum.
Þetta var fyrsti leikur BÍ/Bolungarvíkur í deildarkeppninni undir stjórn Guðjóns Þórðarssonar en liðið var mikið breytt frá síðustu leiktíð þegar það vann sér sæti í 1. deildinni.
Okkar maður fyrir vestan, Ólafur Kristinn fylgdist með gangi mála.
BÍ/Bolungarvík - ÍR 1:2
15:58 Umdeildur dómari leiksins flautar til leiksloka strax í kjölfar vítaspyrnunnar.
15:55 Mark! Axel Kári Vignisson skorar úr vítaspyrnu þegar þrjár mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma. Boltinn fór í höfuð varnarmanns BÍ/Bolungarvíkur samkvæmt Ólafi Kristni okkar manni fyrir vestan. Dómarinn hefur að hans sögn tekið markar undarlegar ákvarðanir í þessum leik.
15:40 Þegar 78. mínútur eru búnar er staðan enn markalaus á Ísafirði, jafnræði hefur verið með liðinum. Þórður Ingason bætti upp fyrir mistökin rétt í þessu þegar hann varði einn á einn gegn ÍR-ingi. Guðjón Gunnarsson hjá ÍR og Ameobi hjá heimamönnum hafa báðir fengið gult spjald í síðari hálfleik.
15:20 - Heimamenn eru búnir að jafna metin en markið kom eftir hornspyrnu á 60. mínútu. Colin Marchall tók þá spyrnuna frá vinstri, Gunnar Már skallaði boltann áfram á færstöngina þar sem Tomi Ameobi skallaði boltann í netið. Staðan því jöfn.
14:52 - Flautað hefur verið til hálfleiks en á síðustu mínútu hálfleiksins var Ameobi kominn einn í gegnum vörn ÍR en var tekinn niður af Karli Brynjari Björnssyni. Dómari leiksins ráðfærði sig við aðstoðardómarann og þeir í sameiningu ákváðu að aðeins um gult spjald væri að ræða, við litla ánægju heimamanna sem vildu sjá annan lit á spjaldinu. Í kjölfarið tók Nicholas Deverdics aukaspyrnu sem markvörður ÍR varði alveg upp í samskeytunum. Glæsileg markvarsla að sögn okkar manns fyrir vestan, Ólafs Kristins.
14:40 - ÍR hefur verið sterkari aðilinn í leiknum þegar 40 mínútur eru búnar af fyrri hálfleik. Axel Kári Vignisson leikmaður ÍR er eini leikmaðurinn sem fengið hefur gult spjald.
14:20 - Gestirnir úr Breiðholtinu eru komnir yfir með marki frá Brynjari Benediktssyni á 16. mínútu. Bæði lið áttu sín færi í upphafi leiks en Oluwatomiwo Ameobi skoraði mark sem dæmt var af. Í kjölfarið brunuðu ÍR-ingar upp hægri kanntinn og Brynjar átti skot frá hægri, undir Þórð Ingason í markinu hjá BÍ/Bolungarvík. „Það er hægt að setja spurningamerki við markmanninn í þessu marki,“ sagði Ólafur Kristinn.
14:03 - Leikurinn er hafinn
13.55 - Aðstæður eru góðar til knattspyrnuiðkunnar á Ísafirði, skýjað gola og þurrt. Völlurinn er hinsvegar mjög linur og laus í sér að sögn Ólafs Kristins.
Leikskýrslan úr BÍ/Bolungarvík og ÍR er tilbúin, smellið hér. Aðeins þrír leikmenn eru í byrjunarliði heimamanna sem spiluðu með liðinu í fyrra. Auk þess eru fimm erlendir leikmenn í byrjunarliðinu.