Norðmaðurinn Ståle Solbakken var í dag kynntur til sögunnar sem ný þjálfari þýska 1. deildarliðsins FC Köln. Solbakken hefur síðustu árin þjálfað danska meistaraliðið FCK í Kaupmannahöfn. Þar með er ljóst að Sölvi Geir Ottesen fær nýjan þjálfara hjá FCk fyrir næstu leiktíð.
Solbakken lýkur keppnistímabilinu með FCK áður en hann tekur við stjórntaumunum hjá FC Köln. Þrjár umferðir eru eftir að dönsku úrvalsdeildinni en henni lýkur í lok þessa mánaðar og á FCK danska meistaratitilinn vísan en liðið hefur 24 stiga forskot á liðið í öðru sæti.
Solbakken hefur stýrt FCK með framúrskarandi árangri síðustu árin. Það hefur unnið danska meistaratitilinn hvað eftir annað og tókst að komast í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í vetur sem leið.
FC Köln hafnaði í 10. sæti þýsku 1. deildarinnar sem lauk á síðasta laugardag.