Sigrar hjá Fjölni og KA

Illugi Þór Gunnarsson kom Fjölni í 1:0 gegn Víkingi.
Illugi Þór Gunnarsson kom Fjölni í 1:0 gegn Víkingi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tveir leikir fóru fram í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. KA sigraði ÍR 3:0 í knattspyrnuhúsinu Boganum og í Grafarvogi lagði Fjölnir lið Víkings frá Ólafsvík að velli 2:0. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

22:02 Leik lokið. Fjölnir vann 2:0 og nýliðarnir í Víkingi hafa þá tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni en liðið komst í undanúrslit bikarkeppninnar í fyrra.  Fjölnismenn eru hins vegar komnir með sex stig í fyrstu tveimur leikjunum.

21:52 Mark! Fjölnir er að landa þremur stigum gegn Víkingum en Guðmundur Karl Guðmundsson bætti við öðru marki á 89. mínútu.

21:17 MARK! Fjölnismenn eru komnir yfir í Grafarvogi með marki frá Illuga Þór Gunnarssyni á 57. mínútu. Illugi skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu. 

Kl 20:59 Leik lokið. KA sigraði ÍR örugglega 3:0. Akureyringar hafa byrjað vel í 1. deildinni og hafa haldið hreinu í fyrstu tveimur leikjunum en þeir gerðu markalaust jafntefli gegn Leikni í Breiðholtinu í fyrstu umferð. Nú kipptu þeir hinu Breiðholtsliðinu niður á jörðina en ÍR sótti þrjú stig vestur í Skutulsfjörð um síðustu helgi. 

Kl 20:57 Ekki tókst leikmönnum Fjölnis og Víkings frá Ólafsvík að skora í fyrri hálfleik í Grafarvoginum. Þar er því allt opið í síðari hálfleik. 

Kl 20:31 Mark! Daniel Howell var að bæta við þriðja marki KA og öðru marki sínu í leiknum með laglegu skoti af 25 metra á 68. mínútu og staða Akureyringa orðin vænleg. 

Kl 20:19 Mark! KA er búið að bæta öðru marki við á 57. mínútu en markið var reyndar skorað af ÍR-ingnum Jóhanni Björnssyni en hann skoraði sjálfsmark með skalla. Akureyringar eru mun grimmari og ÍR á í vök að verjast.

Kl 19:59 Flautað hefur verið til leikhlés í Boganum á Akureyri og KA er yfir 1:0. Akureyringar fengu nóg af færum og Breiðhyltingar björguðu til að mynda á línu auk þess sem Róbert Örn Óskarsson hefur staðið fyrir sínu í markinu en Róbert er nýkominn til ÍR. Gestirnir komust betur inn í leikinn á síðasta korterinu í fyrri hálfleik og gætu því orðið öflugri í síðari hálfleik en í þeim fyrri.

Kl 19:21. Mark! KA hefur komist yfir gegn ÍR. Daniel Howell fékk langa stungusendingu inn fyrir vörn ÍR og renndi boltanum framhjá markverði ÍR-inga. KA-menn hafa verið mun sprækari í upphafi leiks.

Leikskýrsla Fjölnir - Víkingur Ó 

Leikskýrsla KA - ÍR

Haukur Heiðar Hauksson, fyrirliði KA, á hér bylmingsskalla að marki …
Haukur Heiðar Hauksson, fyrirliði KA, á hér bylmingsskalla að marki ÍR eftir horn snemma leiks. Daniel Howell, fyrir miðri mynd, braut ísinn skömmu síðar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert