Djúpmenn sóttu þrjú stig á Ásvelli

Frá viðureign Hauka og BÍ/Bolungarvíkur á Ásvöllum í dag.
Frá viðureign Hauka og BÍ/Bolungarvíkur á Ásvöllum í dag. www.mbl.is

Leikmenn BÍ/Bolungarvíkur gerðu góða ferð að Ásvöllum í dag og unnu þar 2:1 sigur á Haukum í lokaleik 2. umferðar 1. deildar karla í knattspyrnu. Liðin eru því bæði með 3 stig eftir fyrstu tvo leikina.

Tomi Ameobi og Michael Abnett komu gestunum í 2:0 eftir markalausan fyrri hálfleik en Ísak Örn Þórðarson minnkaði muninn seint í leiknum. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

86. MARK!! Haukar minnkuðu muninn í 2:1 þegar Ísak Örn Þórðarson skallaði knöttinn í netið af nokkuð stuttu færi eftir fyrirgjöf frá hægri og hleypti spennu í leikinn.

82. Heimamenn voru nálægt því að minnka muninn þegar fyrirgjöf barst fyrir markið. Þórður markvörður ætlaði að grípa boltann en misreiknaði stefnu boltans og missti hann einhvern veginn í samskeytin. Atli Guðjónsson þrumaði boltanum svo í burtu nánast af marklínu.

68. MARK!! BÍ/Bolungarvík komst í 2:0 þegar Michael Abnett skoraði auðveldlega í tómt markið eftir sendingu frá Ameobi sem hafði sloppið í gegnum vörn Hauka. Abnett var tiltölulega nýkominn inná sem varamaður. Skömmu fyrir markið hafði Þórður Ingason varið fast skot heimamanna.

61. MARK!! Colin Marshall fékk að leika með knöttinn fram völlinn og hann gaf svo stungusendingu á Oluwatomiwo Ameobi sem renndi boltanum framhjá Daða markverði og kom BÍ/Bolungarvík í 1:0.

45. Hálfleikur. Staðan var markalaus þegar liðin gengu til búningsklefa. Gestirnir hafa verið sterkari aðilinn en það hefur verið lítið sem ekkert um færi í þessum fyrri hálfleik.

41. Hilmar Trausti Arnarsson átti bestu marktilraun Hauka en Þórður Ingason sá við honum og varði aukaspyrnu hans í horn.

37. Djúpmenn voru nálægt því að komast yfir þegar Alexander Veigar Þórarinsson reyndi skot að marki en boltinn small í stönginni. Alexander fékk langa sendingu frá Sölva Gylfasyni og reyndi skotið vinstra megin úr teignum.

28. Þegar tæpur hálftími er liðinn af leiknum hafa enn engin almennileg færi litið dagsins ljós í rokinu á Ásvöllum. Stemningin í nýrri stúku þeirra Haukamanna er þó ágæt en þar er þétt setið.

0. Byrjunarliðin hafa verið tilkynnt og má sjá þau með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

Leikskýrsla KSÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert