Það verður ekki í fyrsta skiptið á morgun sem Barcelona tekur þátt í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á Wembley. Liðið vann ítalska liðið Sampdoria 1:0 árið 1992, þá á gamla Wembley. Þetta var jafnframt fyrsti titill félagsins en liðið hefur tvisvar unnið keppnina síðan þá, 2006 og 2009.
Ronald Koeman skoraði eina mark leiksins úr aukaspyrnu á 111. mínútu en staðan var markalaus að loknum venjulegum leiktíma. Fyrir leikinn var búist við markasúpu á Wembley enda þóttu liðin þau sókndjörfustu á þessum tíma í Evrópukeppninni.
Þrír menn rifja upp þennan leik á heimasíðu UEFA þar á meðal er Gianluca Vialli þáverandi framherji og markaskorari Sampdoria. Hann er greinilega enn að svekkja sig yfir því að hafa ekki nýtt nokkur færi eins og sönnum markaskorara sæmir. „Fyrir mig persónulega þá var áskorunin að spila á Wembley nokkuð erfið. Það var orðrómur um að ég væri að fara til Juventus eftir tímabilið. Ég reyndi hinsvegar að einblína á leikinn en var svolítið truflaður af því sem var að gerast í kringum mig.
Leikurinn mun hinsvegar lifa lengi í minningunni þar sem hann var minn síðasti fyrir Sampdoria. Ég fékk þrjú mjög góð færi til að skora og hefði átt að vera beittari. Wembley var í þá daga gamall völlur fullur af sögu og hefðum. Ég hafði leikið áður með Sampdoria og landsliðinu á vellinum og því var þetta ekki nýtt fyrir mér, en ég vann virkilega fyrir sögunni.“
Vissi hvað þyrfti til að vinna
Johan Cruyff stýrði Barcelona til sigurs í keppninni og hann man hlutina vel. „Reynslan sem ég hafði sem þjálfari og leikmaður hjálpaði mér mikið. Þegar þú veist hvað fór úrskeiðis fyrst þá, þá veistu afhverju þú tapaðir. Þú veist líka hvað þú gerðir rétt í þau þrjú skipti sem þú vannst, sagði Cruyff en hann vann titilinn þrisvar með hollenska liðinu Ajax.
Studdi Barcelona árið 1992
Gary Lineker sem spilaði með Barcelona frá 1986 til 1989 var á meðal áhorfenda á Wembley til að styðja sína gömlu félaga. „Ég var auðvitað nýlega búinn að spila með liðinu svo ég var mjög áhugasamur um að þeir myndu vinna titilinn og þeir áttu það svo sannarlega skilið. Ég man að það var Koeman sem skoraði markið. Þetta var því mjög tilfinningaríkt og andrúmsloftið var frábært, eins og það var alltaf og er enn á Wembley. omt@mbl.is