Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið seldur frá SönderjyskE í Danmörku til Zulte-Waregem í Belgíu. Þetta var tilkynnt fyrir lokaleik SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni í dag.
Þá var þegar ljóst að Ólafur Ingi hefði spilað sinn síðasta leik fyrir félagið þar sem hann tók út leikbann í dag.
Klaus Rasmussen, formaður SönderjyskE, staðfesti við Ekstra Bladet að um góða sölu væri að ræða. Ólafur Ingi kom til danska félagsins frá Helsingborg í Svíþjóð í ársbyrjun 2010 og hefur því leikið í hálft annað ár með félaginu.
Zulte-Waregem hafnaði í 11. sæti í belgísku A-deildinni á nýloknu keppnistímabili.
Ólafur Ingi er 28 ára gamall miðjumaður og var í röðum ensku liðanna Arsenal og Brentford áður en hann gekk til liðs við Helsingborg árið 2007. Hann hefur spilað 15 landsleiki fyrir Íslands hönd og er í landsliðshópnum fyrir leikinn gegn Dönum á Laugardalsvellinum næsta laugardag.