Ragnar á leið til FC Köbenhavn?

Ragnar Sigurðsson á landsliðsæfingu.
Ragnar Sigurðsson á landsliðsæfingu. mbl.is/Ómar

Dönsku meistararnir FC Köbenhavn eru í þann veginn að kaupa Ragnar Sigurðsson, landsliðsmann í knattspyrnu, af IFK Gautaborg fyrir 7 milljónir sænskra króna, 130 milljónir íslenskra króna, samkvæmt frétt Aftonbladet í dag.

Blaðið segir að samkvæmt sínum heimildum verði gengið frá kaupunum á Ragnari í dag. Hann vildi þó ekki staðfesta það þegar Aftonblaet ræddi við hann í gærkvöld, eftir 1:0 sigur á Djurgården í 16-liða úrslitum sænska bikarsins.

„Það er ekkert í höfn ennþá. Við sjáum hvað setur. Ég hef heyrt að þeir hafi fylgst með mér en það er ekkert á hreinu," sagði Ragnar við blaðið.

Blaðamaður Aftonbladet sagði þá við Ragnar að samkvæmt sínum heimildum yrði skrifað undir í dag, mánudag. "Það er ekki rétt. Ég mun ekki skrifa undir á morgun (í dag)" svaraði Ragnar.

"Ég vil ekkert segja um málið," sagði Carl Fhager, lögfræðingur og ráðgjafi Ragnars, við Aftonbladet.

Með FC Köbenhavn leikur Sölvi Geir Ottesen, félagi Ragnars í íslenska landsliðinu. Danska liðið varð meistari í vor með gífurlegum yfirburðum og komst í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í vetur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert