Baráttujaxlinn Aron Gunnarsson leyndi ekki vonbrigðum sínum þegar mbl.is ræddi við hann að loknum leiknum gegn Dönum á Laugardalsvellinum í kvöld. Danir sigruðu 2:0 og Ísland er því enn með aðeins eitt stig í riðlinum í undankeppni EM.
Aron var mjög hreinskilinn í sinni nálgun og sagði það vera ömurlegt að koma heim og spila fyrir framan þjóðina og tapa. Landsliðsmennirnir væru í fótbolta til þess að vinna og enginn þeirra hefði gaman af því að tapa leikjum.
Aron vildi ekki skýla sér á bak við kynslóðaskiptin sem orðið hafa í liðinu. Þó margir leikmanna liðsins væru ungir að árum þá væru þeir engu að síður atvinnumenn í íþróttinni.