Eins lengi og risaeðlur stýra Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA, mun spilling ríkja innan þess og grunur leika á um að úrslitum leikja sé hagrætt. Þetta segir knattspyrnugoðið Diego Maradona í samtali við fjölmiðla í Dubai.
Maradona er þekktur fyrir að tala enga tæpitungu og hefur lengi verið lítill aðdáandi stjórnenda FIFA. Svo virðist sem álit hans á stjórnendum FIFA hafi síst aukist upp á síðkastið.
Maradona segir Blatter ekki starfi sínu vaxinn sem forseti FIFA. Hann hafi aldrei leikið knattspyrnu og fyrir vikið hafi hann ekki þekkingu á íþróttinni. „Ég tel að FIFA eiga að velja sér forseta sem hefur leikið fótbolta,“ sagði Maradona án þess þó að nefna einhvern tiltekinn knattspyrnumann sem hann vilji sjá í forsetastólnum.
Maradona tók nýverið við þjálfun Al-Wasl, félagsliðs í Dubai en hann stýrði argentínska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku á síðasta sumri.