Íslensk stúlka í úrslitaleik EM

María Þórisdóttir.
María Þórisdóttir. www.uefa.com

María Þórisdóttir er í norska U19 ára landsliðinu í knattspyrnu sem er komið í úrslitaleik Evrópumótsins í þessum aldursflokki eftir sigur á Ítalíu, 3:2, í undanúrslitunum en úrslitakeppnin fer fram á Ítalíu.

María, sem er nýorðin 18 ára gömul, hefur verið búsett lengi í Noregi og er norskur ríkisborgari. Hún leikur með úrvalsdeildarliðinu Klepp og spilar ýmist sem varnar- eða miðjumaður. María á fast sæti í U19 ára liðinu og hefur spilað alla leiki þess á mótinu á Ítalíu og aðeins verið einu sinni skipt af velli, þá þremur mínútum fyrir leikslok í öruggum sigurleik.

Norska liðið tapaði 1:3 fyrir Þýskalandi í fyrsta leik en vann síðan Holland 3:0 og Spán 5:1. Í úrslitaleiknum mætast Noregur og Þýskaland að nýju en leikurinn fer fram í Imola á Ítalíu annað kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert