Sigurganga Skagamanna heldur áfram

Varnarmaðurinn Andri Freyr Björnsson skoraði tvö fyrstu mörk Selfyssinga.
Varnarmaðurinn Andri Freyr Björnsson skoraði tvö fyrstu mörk Selfyssinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórir leikir fóru fram í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld og hófust þeir allir klukkan 20:00. Skagamenn halda sínu striki og sigruðu Hauka 1:0 á útivelli. Selfyssingar sýndu sparihliðarnar og unnu KA sannfærandi 3:0. Grótta náði í stig í Grafarvogi með markalausu jafntefli gegn Fjölni og nýliðar BÍ/Bolungarvíkur unnu sinn fjórða leik í deildinni þegar þeir sigruðu HK 2:1.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Úrslit í leikjunum:

BÍ/Bolungarvík - HK: 2:1 - Leik lokið
(Tomi Ameobi 60., Matthías K. Jóhannsson 67. - Hólmbert Aron Friðjónsson 8. Rautt spjald: Birkir Sverrisson (BÍB) 87.)

Fjölnir - Grótta: 0:0 - Leik lokið

Selfoss - KA: 3:0 - Leik lokið
(Andri Freyr Björnsson 45., 48., Viðar Örn Kjartansson 65.)

Haukar - ÍA: 0:1 - Leik lokið
(Arnar Már Guðjónsson 14.(víti))

Stöðuna í deildinni má finna hér á mbl.is. 

90. mín: Öllum leikjum kvöldsins er lokið og hvergi var skorað á síðustu mínútunum. Lítið hefur verið minnst á leik Fjölnis og Gróttu en ekki að ástæðulausu því þar var markalaust. 

88. mín: Rautt spjald! Birkir Sverrisson hjá BÍ/Bolungarvík var að fá rautt spjald. Hann var áður búinn að fá gult spjald í síðari hálfleik en samkvæmt tíðindamanni mbl.is á Torfnesvelli þá fékk Birkir líklega beint rautt. Hann braut af sér á miðjum vellinum. 

67. mín: Mark! Djúpmenn hafa snúið leiknum gegn HK sér í hag. Matthías Króknes Jóhannsson skoraði annað mark BÍ/Bolungarvíkur með skoti utarlega úr vítateignum en hann kom inn á sem varamaður liðlega fimm mínútum áður. 

65. mín: Mark! Selfyssingar eru að rúlla yfir lærisveina Gunnlaugs Jónssonar í KA. Selfoss skoraði undir lok fyrri hálfleiks og hafa bætt við tveimur á fyrstu tuttugu mínútunum í þeim síðari. Bakvörðurinn Andri Freyr Björnsson hefur skorað tvívegis og Viðar Kjartansson skoraði þriðja markið. 

60. mín: Mark! Vestfirðingar eru búnir að jafna leikinn gegn HK. BÍ/Bolungarvík fékk aukaspyrnu og Colin Marshall náði að skalla hana áfram inn á teiginn þar sem Tomi Ameobi skoraði með skalla af stuttu færi en hann hefur verið afar drjúgur í markaskorun. 

45. mín: Mark! Flautað hefur verið til leikhlés í leikjunum fjórum og eitt mark hefur bæst við.  Andri Freyr Björnsson kom Selfossi yfir gegn KA. Staðan er óbreytt í hinum leikjunum.

28. mín: Staðan er markalaus á Selfossi. Gamla brýnið Auðun Helgason sem nú spilar með Selfyssingum þurfti að fara af leikvelli á 28. mínútu vegna meiðsla. 

14. mín: Mark! Skagamenn eru komnir yfir gegn Haukum á Ásvöllum. Arnar Már Guðjónsson skoraði úr vítaspyrnu á 14. mínútu. 

8. mín: Mark! Frábær byrjun hjá botnliði HK í Skutulsfirðinum. Hólmbert Friðjónsson skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu á 8. mínútu og HK er komið í 1:0 gegn BÍ/Bolungarvík. 

Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA heimsækir sína gömlu lærisveina á Selfossi.
Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA heimsækir sína gömlu lærisveina á Selfossi. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert