Noregur vann í dag nauman sigur á Miðbaugs-Gíneu, 1:0, í fyrsta leik D-riðils á HM kvenna í knattspyrnu í Þýskalandi. Emilie Haavi skoraði eina markið aðeins nokkrum mínútum fyrir leikslok við gríðarlegan fögnuð Norðmanna.
Haavi skoraði markið með skoti úr teignum eftir fyrirgjöf frá Leni Larsen Kaurin sem markvörður Miðbaugs-Gíneu náði að slá út. Bæði lið áttu fjölda marktilrauna í leiknum og kom frammistaða Afríkuliðsins afar mikið á óvart.
Noregur hefur lengi verið í fremstu röð í knattspyrnu kvenna og er í 9. sæti á heimslista FIFA, en þar er Miðbaugs-Gínea í 61. sæti.