Söguleg úrslit á Ísafirði

Leikmenn Bí/Bolungarvíkur gátu fagnað í leikslok.
Leikmenn Bí/Bolungarvíkur gátu fagnað í leikslok. Eggert Jóhannesson

BÍ/Bolungavík tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum Valitor-bikarsins í knattspyrnu karla með 3:2 sigri á Þrótti R. Gestirnir komust í 0:1 en heimamenn svöruðu með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla. Staðan því 2:1 í hálfleik. Bæði lið gerðu svo eitt mark í síðari hálfleik með mínútu millibili og það dugði Djúpmönnum til sigur.

Þetta er í fyrsta skiptið síðan 1960 sem vestfirskt lið kemst í undanúrslit í bikarkeppninni í knattspyrnu en þá var það ÍBÍ, eða Íþróttabandalag Ísafjarðar. Sagan er því í skrifum fyrir vestan.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu.

BÍ/Bolungarvík - Þróttur R. 3:2 Leik lokið
(Nicholas Deverdics 3., 66., Alexander Veigar Þórarinsson 8. - Guðfinnur Þórir Ómarsson 2., Sveinbjörn Jónasson 67.)

88. Oddur Björnsson á skalla í slánna eftir fyrirgjöf frá Daða Bergssyni sem er kominn inná af bekknum hjá Þrótti. Þarna fór upplagt færi forgörðum hjá gestunum til að jafna metin.

85. Djúpmenn þurfa að halda út í fimm mínútur í viðbót og þá eru þeir komnir í undanúrslit.

82. Sveinbjörn á fínt skot fyrir gestina að marki en Þórður Ingason ver vel.

78. Það hafa ekki mörg færi litið dagsins ljós eftir þessa tveggja marka og mínútna syrpu hjá liðunum áðan. Þróttarar þurfa eitt mark í viðbót til að tryggja sér framlengingu og tvö til að vinna leikinn. Það hefur sýnt sig í þessum leik að mörkin koma yfirleitt á færibandi ef þau koma á annað borð.

67. MARK! 3:2 Þróttarar eru ekki búnir að játa sig sigraða heldur jafna strax í kjölfarið eða mínútu síðar. Þróttarar tóku miðju og samkvæmt tíðindamanni okkar á Ísafirði var það Sveinbjörn Jónasson sem skoraði markið af löngu færi. Hann var þó ekki alveg viss hvort það væri Sveinbjörn en við fáum botn í það fljótlega.

66. MARK! 3:1 Nicholas Deverdics skorar aftur fyrir BÍ/Bolungarvík og aftur beint úr aukaspyrnu um 20 metra frá marki. Setti boltann yfir vegginn og á nærstöngina.

58. Guðfinnur Þórir Ómarsson á gott skot að marki BÍ/Bolungarvíkur fyrir utan teig en Þórður Ingason ver vel í horn. Ekkert verður út hornspyrnu Þróttar. Gestirnir sækja öllu meira.

50. Þróttarar sækja og fá hornspyrnu. Boltinn berst út fyrir teiginn þar sem leikmaður Þróttar á gott skot en það rétt framhjá markinu.

46. Seinni hálfleikur er hafinn.

45. Hálfleikur á Torfnesvelli og staðan er 2:1. Leikurinn byrjaði frábærlega með þremur mörkum á fyrstu átta mínútum. Síðan þá hefur aðeins dregið úr marktækifærunum en engu að síður er góð stemning bæði á vellinum og í stúkunni. Veðrið heldur auk þess áfram að leika við mannskapinn.   

35. Eftir frábæra byrjun hefur aðeins dregið af leikmönnum og liðin náð að þétta varnir sínar og miðju. Eina markverða sem gerst hefur er að gestirnir áttu skot fyrir utan teig en Þórður Ingason í marki Djúpmanna varði vel. Þá hafa nokkur gul spjöld farið á loft hjá dómara leiksins, Kristni Jakobssyni.

12. Færi Þróttarar fengu aukaspyrnu á svipuðum stað og heimamenn þegar þeir skoruðu fyrra markið eða hjá vítateigsboganum. Sveinbjörn Jónasson tók spyrnuna en boltinn í hliðarnetið. Skömmu síðar sendi Sveinbjörn góða stungusendingu inn á Odd Björnsson sem var að koma sér í skotstöðu þegar varnarmaður BÍ/Bolungarvíkur náði að komast fyrir og bægja hættunni frá.

8. MARK! Hvernig endar þetta? BÍ/Bolungarvík er komið yfir og það aðeins sex mínútum eftir að gestirnir skoruðu fyrsta markið. Michael Abnett átti þá sendingu fyrir markið þar sem Alexander Veigar Þórarinsson beið eftir boltanum og skallaði hann í netið. Frábær byrjun á þessum leik og áhorfendur eru vel með á nótunum!

3. MARK! 1:1 Talandi um að leikurinn byrji með látum. BÍ/Bolungarvík er búið að jafna metin og það aðeins mínútu seinna. Brotið var á Andra Rúnari Bjarnasyni sem er í byrjunarliðinu í stað Tomi Ameobi, sem er í banni. Nicholas Deverdics tók spyrnuna frá vítateigsboganum og smellti boltanum efst i markhornið.

2. MARK! 0:1 Leikurinn byrjar með látum. Eftir snarpa sókn Þróttara kom sending fyrir frá hægri, Guðfinnur Þórir Ómarsson fékk boltann, ógnaði skoti og plataði þannig varnarmanninn. Hann smellti síðan boltanum í vinkilinn og átti Þórður Ingason markvörður Djúpmanna ekki möguleika.

1. Leikurinn er hafinn á Torfnesvelli.

13.25 Veðrið leikur við áhorfendur en sólin lætur af og til sjá sig, það er heitt í veðri og hægur vindur. Völlurinn er auk þess góður. Ólafur Kristinn, okkar maður á Ísafirði segir að mikil stemning sé í bænum og áhorfendur séu nú samankomnir á Silfurtorgi þar sem hljómsveitin 1860 skemmtir mannskapnum. 

13.20 Leikskýrslan  

Úr leik liðanna í lok júní í deildinni.
Úr leik liðanna í lok júní í deildinni. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert