Víkingur vann 4:1 sigur á BÍ/Bolungarvík í Ólafsvík í kvöld í 1. deild karla í knattspyrnu eftir að hafa lent undir snemma leiks. Þar með komust Víkingar upp fyrir Djúpmenn og í 7. sæti deildarinnar. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Víkingur Ó. - BÍ/Bolungarvík, 4:1
(Artjoms Goncars 42. (víti), 47. (víti), Guðmundur Steinn Hafsteinsson 51., Eldar Masic 74. - Nicholas Deverdics 12.)
74. MARK! Víkingar hafa líklega gert út um leikinn. Eldar Masic sendi boltann á Þorstein Má Ragnarsson sem gaf hann aftur á Masic og hann skoraði úr miðjum teignum. Lagleg sókn.
68. Artjoms Goncars fékk mjög gott færi til að skora sitt þriðja mark þegar hann komst í skotfæri við annað markteigshornið en skaut yfir. Mikil spenna og harka er í leiknum samkvæmt heimildamanni mbl.is og úrslitin hvergi nærri ráðin.
54. Colin Marshall átti skot frá vítateigslínunni sem hafnaði í þverslánni á marki Víkinga!
51. Strax eftir mark heimamanna komst Loic Ondo einn gegn markverði en Einar Hjörleifsson varði skot hans.
51. MARK! Guðmundur Steinn Hafsteinsson komst við annan mann gegn einum varnarmanni gestanna og skoraði, og kom Víkingum í 3:1. Þrjú mörk heimamanna á tíu mínútna leikkafla ef leikhléið er undanskilið.
50. Víkingar voru nálægt því að skora sitt þriðja mark. Fyrst átti Emil Dokara skot en gestirnir björguðu á marklínu, og svo átti markaskorarinn Goncars skot í þverslána.
47. MARK! Víkingar komust yfir þegar Artjoms Goncars skoraði aftur úr vítaspyrnu. Í þetta sinn var brotið á Guðmundi Steini Hafsteinssyni.
42. MARK! Víkingar fengu vítaspyrnu þegar brotið var á Þorsteini Má Ragnarssyni innan teigs. Artjoms Goncars tók spyrnuna og skoraði og jafnaði með því metin í 1:1.
38. Þessi grannaslagur er nokkuð harður og lítið um almennileg færi. Brynjar Kristmundsson var að taka aukaspyrnu rétt utan vítateigs en skaut naumlega yfir mark gestanna.
18. Víkingar komust í dauðafæri. Edin Beslija fékk boltann í vítateignum í opnu skotfæri en skaut á Þórð Ingason sem varði. Heimamenn sækja nú meira en gestirnir eru hættulegir í skyndisóknum sínum.
12. MARK! Gestirnir fengu aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Nicholas Deverdics tók spyrnuna og skaut yfir varnarvegginn og í markið.
1. Þá er leikur hafinn fyrir vestan í nokkuð stífri norðanátt og kvöldsól. Byrjunarliðin má sjá með því að smella á leikskýrsluna hér að neðan.