Argentína féll gegn Úrúgvæ

Fernando Musleera markvörður Úrúgvæ ver frá Gonzalo Higuaín úr dauðafæri.
Fernando Musleera markvörður Úrúgvæ ver frá Gonzalo Higuaín úr dauðafæri. Reuters

Gestgjafar Argentínu eru úr leik í Ameríkubikarnum í fótbolta, Copa America, eftir tap fyrir Úrúgvæ í vítaspyrnukeppni í Santa Fé, en liðin skildu jöfn í framlengdum leik, 1:1.

Diego Pérez kom Úrúgvæ yfir á 11. mínútu en Gonzalo Higuaín jafnaði fyrir Argentínu á 17. mínútu. Peréz var síðan rekinn af velli fyrir hlé þegar hann fékk sitt annað gula spjald.

Úrúgvæjar voru því manni færri þar til undir lok venjulegs leiktíma þegar Javier Mascherano, fyrirliði Argentínu, var einnig rekinn af velli með sitt annað gula spjald.

Ekkert var skorað í framlengingu en Fernando Muslera markvörður var hetja Úrúgvæja og varði nokkrum sinnum frábærlega í leiknum.

Í vítaspyrnukeppninni var það svo Muslera sem gerði útslagið. Hann varði frá Carlos Tévez en allir aðrir skoruðu. Úrúgvæ vann vítaspyrnukeppnina 5:4 og mætir Perú í undanúrslitum keppninnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert