Eiður: Orðlaus yfir stuðningsmönnunum

Eiður Smári með treyju AEK.
Eiður Smári með treyju AEK. aekfc.gr

Eiður Smári Guðjohnsen knattspyrnumaður ræddi við fréttamenn í Aþenu í dag eftir að hafa skrifað undir samning til tveggja ára við AEK sem þar með er ellefta félag Eiðs Smára á ferlinum. Hann kvaðst hlakka til að takast á við nýja áskorun.

„Ég er ánægður og spenntur fyrir því að vera hér. Þetta er nýtt skref á mínum ferli og áskorun fyrir mig. Ég mun gefa allt sem ég get til að standast hana,“ sagði Eiður Smári sem er strax gríðarlega vinsæll hjá stuðningsmönnum AEK sem fjölmenntu til að berja hann augum við komuna til Aþenu í gær og létu vel í sér heyra.

„Mér hefur litist vel á allt þennan fyrsta dag minn hér. Aðstæður hjá AEK eru góðar og metnaður forseta félagsins hefur heillað mig. Hann útskýrði fyrir mér sögu félagsins og nú reyni ég að læra allt sem ég þarf um mitt nýja lið. Ég verð að viðurkenna að stuðningsmennirnir gerðu mig orðlausan,“ sagði Eiður meðal annars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert