Það verða Paragvæ og Úrúgvæ sem leika til úrslita um Ameríkubikarinn í fótbolta, Copa America, eftir að Paragvæjar lögðu Venesúela í vítaspyrnukeppni í Mendoza í Argentínu í nótt.
Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma eða í framlengingunni. Undir lok fyrri hálfleiks framlengingar fékk Jonathan Santana, leikmaður Paragvæ, rauða spjaldið, en bæði þjálfari og aðstoðarþjálfari liðsins voru reknir uppí stúku áður en yfir lauk.
Í vítaspyrnukeppninni skoruðu Paragvæjar úr öllum fimm spyrnum sínum af miklu öryggi og markvörður þeirra, Justo Villar, varði eina spyrnu frá Venesúela.
Paragvæ leikur þar með til úrslita í keppninni án þess að hafa unnið einn einasta leik. Liðið gerði jafntefli í öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni, vann Brasilíu í vítaspyrnukeppni eftir 0:0 jafntefli og lék sama leik gegn Venesúela í nótt.
Venesúela, spútniklið keppninnar, mætir Perú í leiknum um bronsverðlaunin á laugardagskvöldið. Úrslitaleikur Úrúgvæ og Paragvæ fer síðan fram á sunnudagskvöldið.