Íslenska landsliðið í knattspyrnu skipað stúlkum 17 ára og yngri tók síðustu æfingu sína hér á landi í gær. Liðið hélt síðar um daginn til Sviss þar sem það tekur þátt í fjögurra liða úrslitakeppni á Evrópumótinu. Þær töpuðu ekki leik á leið sinni að mótinu í bæði undankeppni og riðlakeppni.
Guðmunda Brynja Óladóttir er framherji og hefur sallað inn mörkunum fyrir landsliðið í aðdraganda mótsins. Þrettán mörk í sautján leikjum segja meira en mörk orð. Hún spilar með Selfossi í fyrstu deild kvenna og hefur þar skorað ellefu mörk í níu leikjum. Hún sagðist í samtali við mbl.is vera spennt fyrir verkefninu.
Þá sagði hún jafnframt að þar sem U-21 árs landsliðið karla hefði ekki unnið sitt mót í sumar þyrtu þær að gera það núna í Sviss. Guðmunda hefur einu sinni komið til Sviss þar sem keppnin fer fram. Það var hinsvegar í mýflugumynd en fjölskylda hennar keyrði aðeins í gegnum landið. Ekki er þó víst að hún fái að skoða það mikið betur í þessari ferð enda verður fótboltinn í aðalhlutverki.