Hvar endar Veigar Páll á endanum?

Veigar Páll Gunnarsson.
Veigar Páll Gunnarsson. Reuters

Veigar Páll Gunnarsson er á förum frá norska úrvalsdeildarfélaginu Stabæk eftir afar farsælan tíma hjá félaginu. Veigar hefur verið í algjöru lykilhlutverki hjá liðinu og í ár hefur hann skorað sjö mörk og lagt upp fjögur í 15 leikjum, en vegna mikilla fjárhagsörðugleika þarf Stabæk nú að láta Garðbæinginn fara.

Vålerenga og Rosenborg virðast eiga í hörkukeppni um að fá leikmanninn til sín og voru fréttir norsku miðlanna í gær nokkuð óljósar. Í gærkvöldi var fullyrt að Stabæk hefði samþykkt tilboð Vålerenga í kappann og er talið að upphæðin nemi á bilinu 3-5 milljónum norskra króna, um það bil 70-100 milljónum íslenskra króna.

Áður hafði komið fram á vef Aftenposten að Veigar Páll hefði samið um persónuleg kjör við Rosenborg. Það er nokkuð óvenjulegt enda venjan sú að félög nái fyrst saman um kaupverð áður en samið er við leikmanninn. Haft er eftir Arnóri Guðjohnsen, umboðsmanni Veigars, að Stabæk hafi gefið leyfi fyrir því að Veigar ræddi við Rosenborg og að Rosenborg sé það lið sem hann vilji spila fyrir. Rosenborg og Stabæk hafa hins vegar ekki náð samkomulagi um kaupverð, og segir Inge André Olsen, yfirmaður íþróttamála hjá Stabæk, óeðlilegt að Veigar hafi samið við Rosenborg.

„Ef leikmaður og Rosenborg hafa náð samkomulagi er ég hissa. Við erum ekki í viðræðum við Rosenborg akkúrat núna og félögin hafa ekki rætt saman í nokkra stund. Ef það passar að Veigar hafi samið við Rosenborg þá er það undarleg aðferð,“ sagði Olsen en Stabæk ku hafa hafnað tilboði frá Rosenborg í síðustu viku.

Veigar hefur góða ástæðu til að vilja frekar fara til Rosenborgar ef satt reynist því þar myndi hann hitta fyrir sinn gamla þjálfara, Svíann Jan Jönsson, auk þess sem liðið leikur í Meistaradeild Evrópu. Rosenborg sló einmitt út Breiðablik í þeirri keppni og mætir Viktoria Plzen frá Tékklandi í fyrri leik liðanna í kvöld. Fyrrnefndur Olsen telur að fleira geti komið til en hann veit ekki til þess að Veigar vilji frekar fara til Rosenborgar en Vålerenga.

„Ég þori ekki að segja til um það. Það eru margir hlutir sem skipta máli þegar kemur að því að velja félag. Oft eru það peningar sem skipta mestu máli,“ sagði Olsen í samtali við TV2.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert