Gengi liðsins ýtt til hliðar

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu og Pétur Pétursson aðstoðarmaður Ólafs.
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu og Pétur Pétursson aðstoðarmaður Ólafs. Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Ungverjalandi í vináttuleik ytra í kvöld og verður flautað til leiks kl. 17.45.

„Gengi okkar hefur ekki verið neitt sérstakt en við leggjum áherslu á að ýta því til hliðar og njóta þess að spila og hafa gaman af því sem við erum að gera,“ sagði Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari í gær. Hann nálgast verkefnið með það fyrir augum að leikmenn Íslands spili boltanum á milli sín í stað þess að senda langar sendingar fram völlinn.

„Við reynum að skerpa á okkar áherslum og bæta okkur. Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með það í Danaleiknum að við virtumst ekki þora að spila boltanum á milli okkar, sérstaklega aftast á vellinum. Þá sendum við mikið af boltum fram en það er ekki okkar stíll og við viljum ekki spila svoleiðis. Við ætlum að reyna að vinna okkur tíma til þess að hafa boltann,“ útskýrði Ólafur.

Forföll algeng í ágúst

Spurður hvort hann horfi mikið í úrslit leiksins sagði Ólafur þau skipta máli. „Auðvitað skipta úrslitin alltaf máli en þau skipta ekki höfuðmáli. Æfingaleikirnir eru alltaf svolítið öðruvísi en mótsleikirnir. Við tölum einnig um komandi leiki í undankeppni EM,“ sagði Ólafur en flestir leikmennirnir í landsliðshópnum hafa áður verið valdir í landsliðsþjálfaratíð Ólafs.

„Elfar Freyr, Hjörtur Logi og Haraldur markvörður hafa verið minna í hópnum en aðrir. Það eru óneitanlega höggvin skörð í hópinn og þannig virðist þetta oft vera í ágústleikjum. Þá eru menn að hefja leik í sínum deildum og einhverjir enn á undirbúningstímabili. Þá er mikið álag á mönnum og mikið um smávægileg meiðsli. Fyrir vikið hafa ágústleikirnir oft reynst okkur erfiðir,“ benti Ólafur á en talsvert var um forföll að þessu sinni. „Eftir að ég tilkynni hópinn eru yfirleitt leikir helgina áður en við hittumst. Þá detta oft á tíðum einhverjir út og þetta er bara eins og gengur og gerist. Þetta er ekki óvanalegt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert