„Þetta voru stórar tölur og lítur illa út fyrir okkur, þetta er stærsta tapið hjá mér með liðinu,“ sagði Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu. Þetta sagði hann eftir 4:0-tap fyrir Ungverjalandi í vináttuleik þjóðanna í gær.
„Fyrri hálfleikurinn var alveg ágætur hjá okkur. Það var hundfúlt að fá þetta mark á sig rétt fyrir hálfleikinn og erfitt þegar ekki mikið sjálfstraust er í liðinu. Staðan 1:0 hefði verið viðráðanlegri. Síðari hálfleikur byrjar ágætlega en síðan fjarar þetta út hjá okkur,“ hafði Ólafur að segja um leikinn.
Ungverjarnir voru fljótir að refsa íslensku leikmönnunum þegar þeir gerðu mistök, sem voru of mörg og of stór. Spurður hvort íslenska liðið þyrfti ekki að sama skapi að refsa andstæðingunum, sem þeir gerðu ekki í gær, sagði Ólafur: „Það var ágætis hugur í mönnum fyrir leikinn og alltaf hefur það verið þannig að menn leggja sig fram. Stundum dugar það bara ekki og þeir eru fljótari en við. Þá eru þeir sérstaklega með sterkt sóknarlið. Mestu vonbrigðin voru hvað við gáfum þeim auðveld mörk. Þeir refsuðu okkur illa.“
Nánar er rætt við Ólaf í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.