Djúpmenn eyðilögðu gleðina

Nicholas Deverdics og Dean Martin berjast um boltann í kvöld.
Nicholas Deverdics og Dean Martin berjast um boltann í kvöld. mbl.is/ernir

ÍA mistókst í kvöld að tryggja sér sæti í efstu deild þegar þeir töpuðu 1:2 fyrir BÍ/Bolungarvík í 1. deild karla í knattspyrnu. Skagamenn þurftu aðeins jafntefli til að tryggja sér sætið eftirsóknaverða en Djúpmenn voru betri og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Það má því segja að Djúpmenn, með Guðjón Þórðarson fremstan í flokki hafi eyðilagt gleðina á Akranesi í kvöld.

Skagamenn léku manni færri frá 74. mínútu þegar Gary Martin var vikið af velli, beint rautt spjald, fyrir tveggja fóta tæklingu. Það nýttu gestirnir sér og Tomi Ameobi skoraði 10 mínútum síðar og kom þeim í 2:1. Mark Doninger fékk svo upplagt tækifæri til að jafna metin á 88. mínútu úr vítaspyrnu. Þórður Ingason markvörður BÍ/Bolungarvíkur gerði sér hinsvegar lítið fyrir og varði spyrnuna.

Skagamenn þurfa því að bíða eitthvað lengur eftir að tryggja sæti sitt en þeir þurfa aðeins eitt stig í síðustu sex leikjunum. Jafnvel þarf ekki að koma til þess ef Haukar tapa stigum í sínum leikjum. Það verður því að teljast líklegt þrátt fyrir ófarirnar í kvöld að það sé aðeins tímaspursmál hvenær það gerist.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér að neðan. 

ÍA - BÍ/Bolungarvík 1:2 Leik lokið
(Ólafur Valur Valdimarsson 39. - Tomi Ameobi 26. (víti), 84.) Rautt spjald: Gary Martin (ÍA) 74.

90. Leik lokið.

88. Þórður Ingason ver spyrnuna, Þórður skutlaði sér til vinstri og varði mjög vel, fasta spyrnu Mark Doninger.

88. Skaginn á víti, brotið á Fannari Gíslasyni.

84. MARK! 1:2 - Tomi Ameobi skorar fyrir BÍ/Bolungarvík! Markið eftir stutta hornspyrnu, þeir sendu síðan boltann fyrir markið þar sem Ameobi skallaði hann í netið. Eru Djúpmenn og Guðjón Þórðarson að koma í veg fyrir að Skaginn tryggi sæti sitt í efstu deild í kvöld.

81. mín: Liðin eru búnar að gera nokkrar breytingar. Pétur Markan er til að mynda kominn inn á hjá BÍ/Bolungarvík og hjá Skagamönnum eru þeir Hjörtur Hjartarson og Dean Martin farnir af velli.

74. RAUTT! - Gary Martin leikmaður ÍA var að fá rautt spjald fyrir tveggja fóta tæklingu samkvæmt tíðindamanni okkar á Akranesvelli. Hann sagði jafnframt að dómari leiksins, Kristinn Jakobsson væri ekki vinsælasti maðurinn hjá Akurnesingum í kvöld því hann hefur leyft Djúpmönnum að komast upp með mikið. Þá sagði hann um 1400 til 1500 manns vera á vellinum. Nú er að sjá hvort ÍA haldi út í 15 mínútur manni færri.

67. Staðan er 1:1. Tvö hálffæri hjá Vestfirðingum með skömmu millibili. Nicky Deverdics og Andri Rúnar Bjarnason reyndu fyrir sér en skutu báðir framhjá marki ÍA.

57. Sigurgeir sendi inn fyrir vörnina, Páll Gísli markvörður ÍA, hitti ekki boltann og fékk Andri Rúnar Bjarnason dauðafæri í kjölfarið en hann hitti ekki heldur boltann og Skagamenn björguðu í horn. Það eru gestirnir sem sækja meira í síðari hálfleik.

46. Gestirnir byrja síðari hálfleik með látum. Andri Rúnar Bjarnason á góðan skalla að marki ÍA sem Páll Gísli ver meistaralega.

46. Seinni hálfleikur er hafinn en engar breytingar voru gerðar á liðinum í hálfleik.

45. Fyrri hálfleik er lokið á Akranesi. Dean Martin fékk síðasta færið í fyrri hálfleik. Þórður Ingason sló fyrirgjöf Skagamanna út í teiginn og þar fékk Martin boltann en skaut framhjá markinu. Mjög fjölmennt er á leiknum og er hann líklega sá fjölmennasti á Skaganum í sumar að sögn heimamanna. Tilefnið er ærið, Skagamenn geta unnið sér sæti í efstu deild á ný með stigi og Guðjón Þórðarson snýr aftur á gamla heimavöllinn.

39. MARK! 1:1 - Gary Martin vann boltann í vítateignum af Sigurgeiri Gíslasyni og kom honum á Ólaf Val Valdimarsson sem skoraði af markteig Skaginn búinn að jafna 1:1.

36. Dean Martin á góða sendingu inn á Gary Martin í teignum en skalli Martin beint á Þórð Ingason í marki gestanna.

26. MARK! 0:1 - Tomi Ameobi skorar örugglega úr vítinu. Reynir Leósson braut á Ameobi sem fór sjálfur á punktinn. 

26. Víti sem Djúpmenn eiga.

20. Liðin sækja nú til skiptis og að þessu sinni voru það gestirnir sem ógnuðu marki ÍA. Tomi Ameobi átti þá ágætan skalla en Páll Gísli Jónsson varði vel.

19. Gary Martin slapp inn fyrir vörn gestanna en að sögn tíðindamanns mbl.is skaut hann púðurskoti í hliðarnetið. Staðan enn 0:0.

13. Tomi Ameobi sleppur framhjá Reyni Leóssyni fyrir liða ÍA en á laust skot framhjá markinu.

10. Fátt markverst hefur gerst fyrstu mínúturnar en Skaginn virðist þó vera að ná tökum á leiknum. Engin hættuleg færi litið dagsins ljós.

1. Flautað hefur verið til leiks á Akranesvelli.

18:55: Guðjón Þórðarson gerir taktíska breytingu á liði sínu og spilar að þessu sinni 5-3-2. Hingað til í sumar hefur hann yfirleitt verið með Tomi Ameobi einan frammi en að þessu sinni er Bolvíkingurinn Andri Rúnar Bjarnason með honum frammi.

18.00 Leikskýrslan.

ÍA - BÍ/Bolungarvík - Atli Guðjónsson sækir að Gary Martin …
ÍA - BÍ/Bolungarvík - Atli Guðjónsson sækir að Gary Martin í leik liðanna í kvöld. mbl.is/Ernir
ÍA - BÍ/Bolungarvík í kvöld
ÍA - BÍ/Bolungarvík í kvöld mbl.is/Ernir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert