Knattspyrnumaðurinn Pálmi Rafn Pálmason hefur leikið afar vel fyrir Stabæk í norsku úrvalsdeildinni í sumar. Hann skoraði sitt fimmta mark fyrir liðið gegn Strömsgodset um síðustu helgi en með sigrinum komst Stabæk upp í 4. sæti deildarinnar. Liðið er aðeins sex stigum á eftir toppliði Molde og á leik til góða.
Samningur Pálma við félagið rennur hins vegar út eftir leiktímabilið og í ljósi þess að Stabæk á í miklum fjárhagserfiðleikum er útlit fyrir að Pálmi hverfi á braut, jafnvel áður en félagaskiptaglugginn lokast nú um mánaðamótin.
„Ég hef það rosalega gott hérna í Stabæk og vona innilega að félagið nái að vinna úr sínum málum og geti áfram fengið að spila heimaleiki sína á Telenor Arena. Ég verð hins vegar líka að hugsa um sjálfan mig og fjölskylduna fyrst og fremst, og það verður að koma í ljós sem fyrst hvað ég geri á næsta ári. Það eru bara 4-5 mánuðir eftir af leiktíðinni en ég get ekki beðið svo lengi með að taka ákvörðun um hvað ég geri í framtíðinni,“ sagði Pálmi Rafn í samtali við Aftenposten. Forráðamenn Stabæk vilja halda honum en viðurkenna að það gæti orðið erfitt.