Steinþór Freyr í landsliðshópinn

Steinþór Freyr í búningi Sandnes.
Steinþór Freyr í búningi Sandnes. www.sandnesulf.no

Fram kemur á vef norska fyrstadeildarliðsins Sandnes Ulf að Steinþór Freyr Þorsteinsson hafi verið kallaður inn í íslenska A-landsliðshópinn í knattspyrnu fyrir leikina gegn Norðmönnum og Kýpurbúum í undankeppni Evrópumótsins sem fara fram 2. og 6. september.

Steinþór hefur leikið sérlega vel með Sandnes á leiktíðinni en liðið trónir á toppi norsku 1. deildarinnar. Hann hefur skorað þrjú mörk fyrir liðið og það þriðja gerði hann í gær þegar hann skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu í 5:3-sigri gegn Bryne.

Steinþór á fimm leiki að baki með A-landsliðinu en hann lék síðast með því gegn Ísraelsmönnum í nóvember.

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari valdi í síðustu viku 23 manna hóp fyrir leikina en útlit er fyrir nokkur forföll í landsliðshópnum vegna meiðsla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert