Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu og leikmennirnir Rúrik Gíslason og Jóhann Berg Guðmundsson sátu fyrir svörum á blaðamannafundi á Ullevaal-leikvanginum í Osló í dag þar sem Íslendingar mæta Norðmönnum í undankeppni EM á morgun.
Fremur fáir norskir fjölmiðlamenn mættu á fundinn alla vega í samanburði við blaðamannafund Norðmanna fyrr um daginn þar sem mikill fjöldi norskra fjölmiðlamanna mætti til að hlýða á landsliðsþjálfarann Egil „Drillo“ Olsen enda eiga Norðmenn góða möguleika á því að komast í lokakeppni EM.
Norskir blaðamenn höfðu mestan áhuga á því að vita hvaða skoðanir Ólafur hefði á því að stjörnurnar John Arne Riise og Morten Gamst Pedersen skuli hafa hrokkið úr skaftinu vegna meiðsla. Ólafur sagði það ekki skipta öllu máli því Norðmenn væru gott lið og sjálfstraustið væri mikið í liðinu um þessar mundir eftir mikla velgengni í riðlinum.
Þeir norsku vildu einnig vita hvernig Ólafur ætlaði að leggja leikinn upp en landsliðsþjálfarinn lét ekki mikið uppi um fyrirætlanir sínar. Hann sagði þó að Ísland myndi spila sína hefðbundnu leikaðferð og Ólafur á von á því að Norðmenn muni reyna að pressa íslenska liðið framarlega á vellinum. Ólafur sagði einnig að margir leikmanna Íslands spiluðu með félagsliðum í Noregi og sú staðreynd myndi gefa þeim aukin kraft í leiknum á morgun.
Rúrik og Jóhann voru sammála um að munurinn á íslenska liðinu og því norska væri ekki svo ýkja mikill ef miðað væri við hvernig fyrri leikur liðanna í Reykjavík þróaðist þar sem Noregur vann 2:1. Í það minnsta væri styrkleikamunurinn á liðunum minni en styrkleikalisti FIFA gefur til kynna.
Rúrik sagðist stundum vorkenna Ólafi vegna þeirrar gagnrýni sem sett hefur verið fram á störf hans sem landsliðsþjálfara. Þótt ábyrgð þjálfarans væri vissulega mikil væru leikmenn þeirrar skoðunar að þeir hefðu ekki alltaf staðið sig nægilega vel.