Portúgal vann í kvöld Kýpur 4:0 á útivelli í H-riðli undankeppni EM í knattspyrnu, sama riðli og Ísland er í. Þeir náðu þar með Noregi að stigum í efsta sætinu en báðar þjóðir eru með 13 stig. Noregur vann fyrr í kvöld Ísland 1:0 með marki úr vítaspyrnu á 88. mínútu. Christiano Ronaldo skoraði tvö af mörkum Portúgala, annað úr vítaspyrnu á 35. mínútu en síðara markið á 82. mínútu.
Varamennirnir Hugo Almeida og Danny bættu við tveimur mörkum á 84. og 90. mínútu. Kýpur mætir næst Íslandi á Laugardalsvelli á þriðjudaginn.