Þjóðverjar unnu í kvöld Austurríki 6:2 í A-riðli undankeppni EM í knattspyrnu karla. Þar með eru þeir öruggir í lokakeppnina sem fram fer í Póllandi og Úkraínu næsta sumar. Gestgjafarnir þurfa að sjálfsögðu ekki að keppa um að komast á mótið. Þjóðverjar eru því eina þjóðin sem hefur þegar tryggt sér farseðilinn en Þýskaland hefur unnið alla sína átta leiki í riðlinum. Þeir eru með 24 stig en Tyrkir sem koma næstir eru með 13 þegar aðeins 9 stig eru eftir í pottinum.
Miroslav Klose skoraði fyrsta markið strax á 9. mínútu. Mesut Özil bætti við örðu á 23. áður en Lukas Podolski skoraði þriðja markið á 28. mínútu. Marko Arnautovic náði að minnka muninn í 3:1 rétt áður en flautað var til hálfleiks. Í þeim síðari byrjuðu heimamenn betur og Özil skoraði annað mark sitt í leiknum á 47. mínútu. Enn minnkuðu Austurríkismenn muninn með marki frá Martin Harnik og staðan orðin 4:2. Það héldu síðan Þjóðverjum engin bönd á síðustu mínútunum en varamennirnir André Schürrle og Mario Götze bættu við tveimur mörkum.