Margrét Lára Viðarsdóttir og Erla Steina Arnardóttir skoruðu mörk Kristianstad í dag þegar liðið vann góðan útisigur á Jitex, 2:1, í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Erla skoraði strax á 2. mínútu leiksins og Margrét bætti við marki á 13. mínútu. Jitex minnkaði muninn fyrir hlé en þar við sat. Margrét, Erla, Guðný Björk Óðinsdóttir og Sif Atladóttir léku allan leikinn með Kristianstad, þrjár þær síðarnefndu í vörn liðsins.
Íslendingaliðið Djurgården vann óvæntan og dramatískan sigur á Kopparbergs/Göteborg, 1:0. Mia Jalkerud skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu í uppbótartíma, og strax í kjölfarið var flautað til leiksloka. Dóra María Lárusdóttir, Katrín Jónsdóttir og Guðbjörg Gunnarsdóttir léku allan leikinn með Djurgården.
Malmö var áfram á sigurbraut og vann Piteå 2:0 með mörkum frá Manon Melis og Nillu Fischer. Sara Björk Gunnarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir spiluðu allan tímann með Malmö.
Malmö er með 37 stig á toppnum, Örebro 32 og Umeå 31, Tyresö og Kopparbergs/Göteborg 30, en leikur Umeå og Tyresö stendur yfir.
Kristanstad er í 6. sætinu með 27 stig og Djurgården er í 7. sætinu með 21 stig.