Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og knattspyrnustjóri hjá Ipswich og Sunderland, er einn þeirra sem sterklega eru orðaðir við starf landsliðsþjálfara Íslands.
Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is hefur borist úr nokkrum áttum um helgina orðrómur um að Keane sé kominn til landsins, eða á leiðinni, og verði á landsleik Íslands og Kýpur á þriðjudagskvöldið.
Keane, sem er nýorðinn fertugur, lék með United frá 1993 til 2005. Hann er atvinnulaus um þessar mundir eftir að hafa verið rekinn úr starfi knattspyrnustjóra Ipswich í janúar.
Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfari Svía, er ennfremur nefndur til sögunnar, sem og Steve Coppell, fyrrverandi knattspyrnustjóri Reading og leikmaður Manchester United á árum áður, sem hefur haft marga Íslendinga undir sinni handleiðslu.
Geir Þorsteinsson formaður KSÍ, sagði í viðtali á Stöð 2 í kvöld að leitað væri að nýjum landsliðsþjálfara, innanlands og utan, en neitaði því að fundað hefði verið með einhverjum ákveðnum þjálfara enn sem komið væri.
Í fréttum Stöðvar 2 var jafnframt sagt frá könnun sem stöðin gerði meðal 85 fulltrúa íslenskra félaga sem sátu síðasta þing Knattspyrnusambands Íslands. Fimmtíu prósent þeirra sem svöruðu vildu að erlendur þjálfari yrði ráðinn til að taka við af Ólafi Jóhannessyni sem hættir störfum eftir leik Íslands og Portúgals í næsta mánuði.