Paolo Guerrero, sóknarmaður þýska knattspyrnuliðsins Hamburger SV, tognaði um borð í flugvél um helgina og gat af þeim sökum ekki tekið þátt í æfingaleik liðsins sem fram fór í Sviss.
Guerrero, sem er landsliðsmaður Perú og var markahæsti leikmaður Ameríkubikarsins, Copa America, í sumar, er afar flughræddur og hann fékk hræðslukast um borð í vélinni á leið til Sviss og tognaði í læri.
Þjálfari Hamburger, Michael Önning, sagði við þýska fjölmiðla að hann vonaðist eftir því að meiðslin væru ekki alvarleg og Guerrero yrði leikfær um næstu helgi.
Guerrero hefur verið í miklum vandræðum vegna flughræðslunnar og kom t.d. of seint til æfinga með þýska liðinu eftir sumarfríið af hennar völdum. Guerrero var þá fjórum sinnum búinn að fara um borð í flugvél í Lima, og hætta við í öll skiptin, en komst loks til Þýskalands í fimmtu tilraun. Hann fór í meðferð vegna þessa í kjölfarið og talið var að hann hefði komist yfir vandamálið en það tók sig upp að nýju.