Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu mun ekki tilkynna byrjunarliðið, sem mætir Kýpur á Laugardalsvellinum í kvöld, fyrr en seinni partinn í dag en vafi leikur á því hvort Indriði Sigurðsson og Sölvi Geir Ottesen geti spilað vegna meiðsla og veikinda.
Hannes Þór Halldórsson mun verja markið í stað Stefáns Loga Magnússonar, sem er í banni, og fari svo að þeir Sölvi og Indriði spili ekki munu Kristján Örn Sigurðsson og líklega Hallgrímur Jónasson taka stöður þeirra í miðverðinum en Kristján var í leikbanni í leiknum á móti Norðmönnum á föstudagskvöldið. Bakverðirnir verða örugglega áfram þeir sömu og léku á móti Noregi, þeir Birkir Már Sævarsson og Hjörtur Logi Valgarðsson. Telja má víst að Ólafur haldi tryggð við þá Helga Val Daníelsson og Eggert Gunnþór Jónsson, sem léku báðir vel á móti Norðmönnum, og fyrir framan þá verður fyrirliðinn Eiður Smári Guðjohnsen.
Jóhann Berg Guðmundsson mun væntalega halda stöðu sinni á á vinstri kantinum, Kolbeinn Sigþórsson verður í framherjastöðunni og líklegt er að Birkir Bjarnason fái að spreyta sig á hægri kantinum í stað Rúriks Gíslasonar sem tekur út leikbann. Björn Bergmann Sigurðarson, sem var kallaður úr U21 ára liðinu í gær, gæti líka leyst þá stöðu en líklegra en að Birkir verði fyrir valinu. gummih@mbl.is