Arnar Þór Viðarsson, leikmaður Cercle Brugge í Belgíu, komst á dögunum í fámennan hóp íslenskra knattspyrnumanna sem hafa spilað 400 deildaleiki á sínum ferli.
Hann er fimmtándi leikmaðurinn sem nær þessum áfanga og sá fyrsti sem bætist í hópinn á þessu ári. Síðastir sem náðu 400 leikjum voru Heiðar Helguson og Brynjar Björn Gunnarsson, báðir á síðasta ári.
Aðeins þrír hafa spilað 500 leiki eða meira, Arnór Guðjohnsen, Ívar Ingimarsson og Hermann Hreiðarsson.
Arnar, sem er 33 ára gamall, hefur leikið með Cercle frá 2008 og misst úr sárafáa leiki á þeim tíma. Hann er í stóru hlutverki á miðjunni hjá liðinu og er nánast aldrei skipt af velli, hefur t.d. leikið fyrstu fimm leikina á nýhöfnu tímabili frá upphafi til enda.
Nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.