Netútgáfur norsku blaðanna eru nú ekki að flagga úrslitunum í landsleik Íslands og Noregs á Laugardalsvellinum í dag. Ísland vann 3:1 og náði strax forskoti á Norðmenn í riðli þjóðanna í undankeppni EM.
Eftir nokkra leit fann mbl.is eina grein hjá Verdens Gang þar sem norski landsliðsþjálfarinn Eli Landsem baðst afsökunar á tapinu og var verið að vísa í viðtal við hana á vefnum Fotball.no.
Þjálfarinn sagði sína leikmenn ekki hafa verið með fyrsta hálftímann og frammistaða liðsins í fyrri hálfleik hafi verið skammarleg. Hún segist ekki leggja það í vana sinn að bölva en í hálfleiksræðunni hafi hún tilkynnt að þeir leikmenn sem ekki hefðu trú á verkefninu gætu orðið eftir í búningsklefanum.
Í greininni segir að það hafi verið bót í máli við Noreg að vinna seinni hálfleikinn en Ísland hafi einfaldlega verið með of mikið forskot eftir fyrri hálfleikinn.
Norðmenn sjá ekki fyrir sér að Íslandi muni tapa mörgum stigum í riðlinum og telja að sú staða geti komið upp að Noregur þurfi að vinna Ísland með meira en tveggja marka mun í Noregi til þess að vinna riðilinn.