Ísland og Belgía gerðu markalaust jafntefli í undankeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í kvöld. Þetta eru mikil vonbrigði eftir góðan sigur Ísland gegn Noregi á laugardaginn og tvö dýrmæt stig fóru í súginn.
Íslenska liðið var mun sterkari aðilinn allan tímann og fékk mörg ágæt marktækifæri en því var fyrirmunað að skora að þessu sinni. Belgar vörðust vel og skipulega og óx ásmegin eftir því sem á leið og þeir voru farnir að eygja möguleikann á óvæntu stigi.
Ísland er nú með 7 stig eftir þrjá leiki á toppi riðilsins. Belgar eru með 4 stig eftir tvo leiki og Norðmenn 3 stig eftir 2 leiki. Næst leikur Ísland við Ungverjaland og Norður-Írland á útivöllum í lok október.
Lið Íslands: Þóra B. Helgadóttir - Ólína G. Viðarsdóttir, Sif Atladóttir, Katrín Jónsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir - Katrín Ómarsdóttir, Dóra María Lárusdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir - Fanndís Friðriksdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir.
Varamenn: Guðbjörg Gunnarsdóttir (m), Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Málfríður Erna Sigurðardóttir, Guðný Björk Óðinsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Laufey Ólafsdóttir, Þórunn Helga Jónsdóttir.
Lið Belgíu: Sabrina Broos - Julie Biesmans, Heleen Jaques (F), Lorca Van De Putte, Niki De Cock, Laurence Marchal, Audrey Demoustiere, Tessa Wulaert, Aline Zeler, Stefania Van Broeck, Lien Mermans.
Varamenn: Lynn Senaeve (m), Carloline Berrens, Davina Philtjens, Marlies Verbruggen, Annaelle Wiard, Steffi De Pelsmaeker, Lenia Onzia.